fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Siv hvarf en hvar er Gulli?

Sumarið 2006 lagðist ég í víking og símaði til þáverandi heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttur. Ég var fullur vonar og bjartsýni að hún mundi heiðra mig með nokkura mínútna spjalli. Taldi mig vera að gera rétt þar sem vímuefnavndinn heyrir, jú, líka undir þetta ráðuneyti, segir sagan á götunni. Ég fylgdi óskum mínum um fund fast eftir eða allt fram að kosningum tæpu ári síðar. Ritari hennar tjáði mér ítrekað á þeim tíma að minn tími mundi koma og þá gætum við Siv horfst í augu og sameiginlega lagst á eitt við að styrkja og efla meðferðastarf á Íslandi. En kosningadagurinn kom svo og vorið. En þegar úrslit lágu fyrir rann það upp fyrir mér að okkar tími var hvergi í sjónmáli í fyrirsjáanlegri framtíð nema þá kannski að við hittumst tilfallandi á götuhorni einhvern daginn. Ef svo verður, mun ég tjá henni vonbrigði mín með fundinn sem aldrei varð og jafnframt hughreysta hana eftir bestu getu eftir vonda útreið í síðustu kosningum.

Guðlaugur okkar maður Þór hneppti stólinn hennar og ég símaði í snarhasti og fylgi símtalinu eftir með formlegum rafrænum pósti eftir að umræddur ritari hafði tjáð mér að það væri venjan. Tíðræddur ritari tjáði mér að minn tími mun koma og þá gætum við Gulli sko horfst í augu og brotið blað í meðferðasögu okkar Íslendinga. Miðað við árið sem ég beið eftir símtali frá Siv er ég ekki enn farinn að örvænta neitt að ráði þó Gulli okkar maður sé búin að láta mig hinkra síðan í sumar. Enda ekki auðveld mál þar á borði sem kalla á góða yfirsýn við að ráðstafa almannafé svo flestir haldi lífi og heilsu.

Ég trúi því að biðin þroski mig og kennir mér æðruleysi af bestu sort því ég þroskaðist, jú, heil ósköp á árinu sem ég beið eftir Siv. Nú meðan ég held áfram að þroskast í biðinni eftir að okkar maður Gulli sími til mín er ég fullur vonar og bjartsýni að það gerist fyrir næstu kosningar og brjóti með mér blað í meðferðasögu okkar Íslendinga. Síðan munum við fagna gerðum háleitra markmiða og úrlausna á vímefnavanda okkar Íslendinga, sem er víst talsverður hef ég heyrt.


En svona til öryggis, ef þið rekist á háttvirtan ráðherra viljið þið láta hann vita að ég sé enn í þroskaferli í biðinni og að mér þykir enn vænt um hann. Það getur nefnilega verið svo kalt og einmannalegt á toppnum. Sjáið hvernig fór fyrir Siv hún gleymdist næstum því alveg í síðustu kosningum og ekki viljum við að það komi fyrir Gullann okkar Þór, þennan öðlings pilt sem hann er og með þetta líka fallega höfuðlag.