fimmtudagur, 20. mars 2008

Hef sagt þetta áður en verð að segja það aftur.

Var að dunda mér við að lesa  hugmyndafræðina bak við pólitísku flokkana  og hvað þeir stæðu fyrir á blaði en lætur bíða eftir sér í verki. Verð að viðurkenna allir eiga þeir hugmyndfræði undir sér sem fær mann til að vilja flagga við öll tækifæri. En það sem mér finnst sameiginlegt með öllum flokkum er þessi fagurgala útsetning, sem sagan sýnir okkur að má túlka í allar áttir. Að hlúa eigi að þeim sem minna mega sín og við sem samfélag verðum að vera til staðar fyrir hvort annað þegar lífið hrynur ofan á einhvern. Sem sagt þessi humaníski undirtónn að manngildi sé ofar auðgildi.

Ég er einmitt einn af þeim sem trúi því alla leið að manngildi sé mun hærra en auðgildi. Þetta minnir mig óneitanlega á slagorð Flokk mannsins heitins sem ruddist með húmanísku kærleiksofbeldi fram á sjónarsviðið en þjóðin snéri flokkinn niður og hraunaði yfir hugmyndafræðina. Kannski setti Flokkur mannsins svolítinn lit í framtíða pólitíkina. Í þá daga  réðu  snaróðir efnishyggjumenn bak við tjöldin (gera enn) og pólitíkusar freyddu úr pontum um mikilvægi þess að þreyja þorrann. Gargandi alþýða var þá og er enn óþægileg stærð, sívælandi um betri laun og meiri velferðarþjónustu. En barátta Flokks mannsins á sínum tíma endaði eins og blautur fretur og þjóðin blés dauninn burt.   Ég man upphrópanir eins og "Guð minn góður, er þetta lið á lyfjum" eða góðlegt og samúðarlegt andvarp með orðum eins og "greyin" Þegar ég hugsa til baka og rifja upp baráttu þessa hugsjónafólks sem var áberandi á níunda áratugnum, dáist ég af þessu hugaða fólki. Fannst svo frábært hvað þau voru einlæg í trú sinna á að Íslensk þjóð væri orðin svo þroskuð að styðja til valda flokk sem trúð því staðfastlega að mannskepnan væri mun meira virði en peningar en viti menn, þjóðin kaus gamla þreytta liðið enn og aftur yfir sig. 

Í minni minningu var fólkið bak við Flokk Mannsins langt á undan sinni samtíð með baráttumál  sem snérust aðallega um húmaníska velferðaþjónustu og virðingu fyrir móðir jörð. Allir með greind yfir stofuhita í dag eru sammála því að Móðir Jörð þjáist undan ágangi okkar mannanna.  

Yfir tuttugu árum síðar, keppumst við pöpullinn við að fá pólitískt kosna einstaklinga til að sjá raunveruleikann í því að þetta snýst allt um velferð fólksins í landinu. Forgangsröð verkefna kosinna pólitíkusa er ekki alveg að slá í takt með okkur sem förum í kjörklefana og veljum að treysta þeim fyrir skútunni næstu árin.  En kannski erum við bara sundurleitur hópur einstaklinga sem keppist við að lifa af dag frá degi en köllum okkur samheldna Íslendinga á góðum degi (heyrist gjarnan úr ræðustólum undir blaktandi taui) en á vondum degi stendur maður sig að hugsunum eins og mér er skítsama, þetta kemur mér ekki rassgat við. En ég ætla "sko" að nota atkvæðið mitt og kjósa eins og ég hef alltaf gert, en hvað ég kýs kemur engum við (sem er að sjálfsögðu rétt). En jafnframt pottþétt svar til að þurfa ekki að taka þátt í heilbrigðu "debatti" um velferð þessara þjóðar og sá hinn sami kýs að gömlum góðum fjölskylduvana.