fimmtudagur, 20. mars 2008

Hef sagt þetta áður en verð að segja það aftur.

Var að dunda mér við að lesa  hugmyndafræðina bak við pólitísku flokkana  og hvað þeir stæðu fyrir á blaði en lætur bíða eftir sér í verki. Verð að viðurkenna allir eiga þeir hugmyndfræði undir sér sem fær mann til að vilja flagga við öll tækifæri. En það sem mér finnst sameiginlegt með öllum flokkum er þessi fagurgala útsetning, sem sagan sýnir okkur að má túlka í allar áttir. Að hlúa eigi að þeim sem minna mega sín og við sem samfélag verðum að vera til staðar fyrir hvort annað þegar lífið hrynur ofan á einhvern. Sem sagt þessi humaníski undirtónn að manngildi sé ofar auðgildi.

Ég er einmitt einn af þeim sem trúi því alla leið að manngildi sé mun hærra en auðgildi. Þetta minnir mig óneitanlega á slagorð Flokk mannsins heitins sem ruddist með húmanísku kærleiksofbeldi fram á sjónarsviðið en þjóðin snéri flokkinn niður og hraunaði yfir hugmyndafræðina. Kannski setti Flokkur mannsins svolítinn lit í framtíða pólitíkina. Í þá daga  réðu  snaróðir efnishyggjumenn bak við tjöldin (gera enn) og pólitíkusar freyddu úr pontum um mikilvægi þess að þreyja þorrann. Gargandi alþýða var þá og er enn óþægileg stærð, sívælandi um betri laun og meiri velferðarþjónustu. En barátta Flokks mannsins á sínum tíma endaði eins og blautur fretur og þjóðin blés dauninn burt.   Ég man upphrópanir eins og "Guð minn góður, er þetta lið á lyfjum" eða góðlegt og samúðarlegt andvarp með orðum eins og "greyin" Þegar ég hugsa til baka og rifja upp baráttu þessa hugsjónafólks sem var áberandi á níunda áratugnum, dáist ég af þessu hugaða fólki. Fannst svo frábært hvað þau voru einlæg í trú sinna á að Íslensk þjóð væri orðin svo þroskuð að styðja til valda flokk sem trúð því staðfastlega að mannskepnan væri mun meira virði en peningar en viti menn, þjóðin kaus gamla þreytta liðið enn og aftur yfir sig. 

Í minni minningu var fólkið bak við Flokk Mannsins langt á undan sinni samtíð með baráttumál  sem snérust aðallega um húmaníska velferðaþjónustu og virðingu fyrir móðir jörð. Allir með greind yfir stofuhita í dag eru sammála því að Móðir Jörð þjáist undan ágangi okkar mannanna.  

Yfir tuttugu árum síðar, keppumst við pöpullinn við að fá pólitískt kosna einstaklinga til að sjá raunveruleikann í því að þetta snýst allt um velferð fólksins í landinu. Forgangsröð verkefna kosinna pólitíkusa er ekki alveg að slá í takt með okkur sem förum í kjörklefana og veljum að treysta þeim fyrir skútunni næstu árin.  En kannski erum við bara sundurleitur hópur einstaklinga sem keppist við að lifa af dag frá degi en köllum okkur samheldna Íslendinga á góðum degi (heyrist gjarnan úr ræðustólum undir blaktandi taui) en á vondum degi stendur maður sig að hugsunum eins og mér er skítsama, þetta kemur mér ekki rassgat við. En ég ætla "sko" að nota atkvæðið mitt og kjósa eins og ég hef alltaf gert, en hvað ég kýs kemur engum við (sem er að sjálfsögðu rétt). En jafnframt pottþétt svar til að þurfa ekki að taka þátt í heilbrigðu "debatti" um velferð þessara þjóðar og sá hinn sami kýs að gömlum góðum fjölskylduvana.  

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Hugrenningar um sjálfsmynd þjóðar?

Mér finnst alltaf jafn undarlegt að heyra í fólki sem hengir sig í skilgreininguna "sjúkdómur" þegar það talar um fíkn og hangir á hugtakinu eins og heilagri ritningu. Sumir ganga svo langt að nota læknisfræðileg heitið "alcaholicus cronicus" þegar það ræðir áfengisneyslu sína. Eins og þetta sé eins og hver önnur umgangspest sem smitast milli manna. Einu smitin sem ég hef orðið var við í vímuefnamálaflokknum eru félagsleg smit. Orðið "sjúkdómur" getur aldrei verið jákvætt hugtak hvernig sem þú skoðar það eða veltir því fyrir þér. Einstaklingur sem leggur í sjálfsvinnu eftir að hafa þróað með sér fíkn, sama hvað fíknin heitir og er með sjálfsmyndina "ég er sjúklingur, því þetta er sjúkdómur" er bara að gera sér erfitt fyrir.

Fíkill undir 18 ára er skilgreindur sem félagslegt vandamál og heyrir því undir félagsmál í kerfinu. Daginn sem fíkillinn verður 18 ára, er hann á sama degi orðinn sjúklingur í kerfinu og heyrir þá undir heilbrygðismál. Þar á bæ eru öll mál  skilgreind sem "sjúkdómur" og er hugtakinu troðið inní sjálfsmeðvitund landans í allri umræðu. 

Margir óvirkir fíklar verða reiðir, þegar ég held þessum hugmyndum úti, að fíkn hafi ekkert með "sjúkdóm" að gera. Ég er oft spurður, hvort mér finnist þeir þá vera aumingjar? Fíklar, virkir eða óvirkir eru stundum svo svart/hvítir í hugsun að ef þetta er ekki "sjúkdómur" þá hlýtur þetta að vera aumingjaskapur. Í mínum huga er það hvorugt, þó svo að virkur fíkill geti hagað sér eins og aumingi, þótt hann sé það alls ekki í grunninn. Ég hef alltaf litið þannig á og aldrei séð annað, hvort heldur þegar ég var virkur eða orðinn óvirkur fíkill, né í starfi mínu með ungum fíklum, að fíkn er undantekningalaust birtingaform á allt öðrum undirliggjandi vanda. Í staðin fyrir að vera alltaf að fókusera á fíknina sjálfa, þarf að finna undirliggjandi orsakir fyrir henni. Af hverju festast sumir í fíkn en aðrir ekki?  Af þeirri einföldu ástæðu að víman deifir brotna sjálfsmynd fíkilsins og verður leið hans til að deyfa sig fyrir sársaukanum sem hann upplifir og hvaðan sem hann kemur. Brotinni sjálfsmynd hjá fíklum fylgir alltaf lág tilfinninga-og félagsgreind sem hægt er að efla og um það á meðferð að snúast.   

Ef þú þú færð einhvern "sjúkdóm" og þar með kallaður "sjúklingur" hættirðu þá að vera manneskja og "sjúkdómurinn" verður sjálfið þitt?  Það eru yfir 300 þúsund "sjúklingar" á klakanum í dag, ef maður hlustar í samfélaginu. Getur verið að við séum búin að heyra það svo oft "sjúkdómur þetta og sjúkdómur hitt" að við hreinlega séum farin að trúa því að við séum á einum stað, öll sjúk? Kannski þess vegna, eigum við Íslendingar heimsmet í hinu ýmsu lyfjaáti og þar trónir hæst geðlyfjaát. Ég velti því fyrir mér, bara með því að fara til tannlæknis og láta hreinsa í sér tennurnar er maður kallaður sjúklingur. Feita fólkið í umræðunni eru tómir sjúklingar, en ekki manneskjur sem borða of mikið og eiga erfitt með hætta því. Ég bíð spenntur eftir því,  að einhver í hvítum sloppi fer að ræða það opinberlega að samkynhneigð sé "sjúkdómur" og örvhentir jafnvel "helsjúkir" Og landin kemur til með að lepja það hugsunarlaust upp. AD-HD var rætt í útvarpsþætti um daginn sem ég hlustaði á sem sjúkdómur??? Á þetta bull engann endi að taka? 

Uppruni orðsins "sjúkdómur", á fíkn í alkahol kemur frá Alþóðarheilbryggðisstofn um miðja síðustu öld. Áfengisfíkn var var svo stórt vandamál í hinum vestræna heimi að vandanum var gefið "sjúkdóms" númer hjá stofnuninni. Sem varð til þess að fólk þess tíma fór að opna augun fyrir vandanum  og gera eitthvað í málunum. Áður var litið niður á fólk sem varð fíkninni  að bráð og orðið "aumingi"  gjarnan notað á það og mörgum finnst það enn. Sem betur fer er umræðan í dag um fíkn orðin mun þroskaðri hjá flestum okkar, en sumir eru fastir í hellinum hamrandi á síðustu aldar hugmyndafræði.

Ég er einn þeirra sem hef haldið því á lofti að það eigi alls ekki að kalla fíkn, "sjúkdóm" Fyrir utan það að "sjúkdómurinn" hefur aldrei verið sannaður en líkurnar á því að þú verðir fíkill af því að foreldrar þínir eru það, eru miklar. En er það vegna þess að þú ert með "genið" ógurlega eða af því að börn sem alast upp hjá fíklum eru með stórskaðaða sjálfsmynd?  Félagslegar rannsóknir sína mun hærri fylgni en líffræðilegar. 

Doctorarnir við voginn og Kári genaspekúlant hafa eitt mörgum árum saman í það að finna áfengisgenið ógurlega. Gengu svo langt að Persónuvernd sá ástæðu til að slá á puttana á þeim.  Allt í lagi með það ef þeir hafa ekkert betra að gera, en að leita að geni, bara til að halda "sjúkdóms" umræðunni til streitu er bara rörsýn og leið til að halda umræðunni eingöngu innan læknastéttarinnar. En hvað ef þeir svo römbuðu á gen merkt alkahol fíkn eða jafnvel gen merkt veiðifíkn? Á þá að leggjast í meiri "sjúkdómspælingar" og þróa lyf við "sjúkdómnum"? Pillur við fíkn verða aldrei annað en nýtt læknadóp, því fíkn er félagslegur og tilfinningalegur vandi. Afi átti bara Bensa, pabbi keyrir ekki annað og ég var að endurnýja minn. Má sjá þetta fjölskyldu thema með Bensinn út frá félagslegu og tilfinningalegu samhengi? Eða er til Bens gen?  

Sama hvað fíkn maðurinn hefur valið sér til að lifa af, sé ég ekki meininguna í því að klastra orðinu "sjúkdómur" á orsök og afleiðingu þess að vera fíkill. Virkur fíkill notar gjarnan orðið "sjúkdómur" til að þurfa ekki að taka ábyrgð vanda sínum. En Þeir sem eru svo kjarkaðir að þora að takast á við fíkn sína eiga alls ekki að mínu mati að setja það inní sjálfið. Heldur skoða sig út frá því að vera manneskja, sem á eða átti við vanda að stríða. Allt fólk, sem til er í þessum heimi á við einhverskonar vanda að stríða, tímabundið eða varanlega og það hjálpar því nákvæmlega ekkert að skilgreina sig sem "sjúkling"  Hættum að persónugera okkur út frá læknisfræðilegum hugtökum eins og t.d. "ég ER offitusjúklingur" Notum heldur orð eins og "ég er manneskja, en er of þung"  Sjálfsmynd okkar verður jákvæðari og þar af leiðandi verðum við miklu hæfari til að takast á við það sem er að hrjá okkur hverju sinni. 


laugardagur, 19. janúar 2008

Handrukkarinn enn og aftur.

Veit ekki hvort ég á að gráta eða hlæja þegar enn og aftur gamla þreytta umræðan um handrukkara fer af stað og hættir nákvæmlega þegar fjölmiðlar fá leið á henni aftur. Svo líður X tími og gamla þeytta umræðan um vondu handrukkarana og getuleysi stjórnvalda til að takast á við þá byrjar aftur. Ef það á að finna sökudólg sem stendur í vegi fyrir lausninni er það auðvelt og það er að sjálfsögðu getuleysi löggunar og þá aðalega þeirra sem stjórna þar á bæ, eða þeirra sem eru yfir þeim í kerfinu. Löggan á málaflokkin og staðreyndin er sú ef  fólk á að þora að stíga fram og benda á þá sem standa í þessu þarf löggan að vera til staðar og vernda þann sem bendir. Ef ekki, heldur vandinn bara áfram og ástandið versnar ef eitthvað er eins og sagan hefur gjarnan  sýnt okkur. Þeir handrukkarar sem ég hef þekkt til finnst löggan lélegur brandari og varla verðugur andstæðingur því fórnarlambið er alltaf óvarið og auðfundið.


Fyrir um fjórum árum sat ég fyrir framan alsherjarnefnd alþingis og þessi umræða var þar á borðum. Þar sátu nokkrir kerfispappakassar og görguðu allan tímann á fundinum að fólk ætti bara að hringja á lögguna og það væri sko stóra lausninn á þessum leiðindum. Síðan er fjöldi manns búin að hringja í lögguna og hafa svo bara lent í miklu verri málum í höndum handrukkara í kjölfarið.  Ég er einn þeirra sem hef bent fólki á að borga ef það getur því reglulega koma upp mál hjá Götusmiðjunni þar sem  ungt fólk er að jafna sig eftir slæma útreið eftir að handrukkara hafa valtað yfir viðkomandi og fjölskyldu hans/hennar. Þetta er umræða sem ég hef tekið virkan þátt í samfélaginu í mörg ár. En staðreyndin er einfaldlega sú að 63 opinberir starfsmenn við Austurvöll hafa lítin sem engan áhuga á umræðunni hvað þá lausninni. Segi það og skrifa, þetta er jú fólkið sem setur leikreglurnar fyrir kerfið sem á að sinna þessum málaflokki. 

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Eins dauði er annars brauð.

Gleðilegt nýtt ár og megi Guðirnir styðja okkur öll til dáða í ár. Til hamingju tollur og lögga með viðurkenninguna frá 365 miðlum. Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim aðilum sem koma að vímuefnatjóninu á hinum endanum með því að styðja fíklana og brotnu einstaklingana í kringum þá til betra lífs fyrir gott samstarf á síðasta ári. Að tolli og löggu ólöstuðum vill oft gleymast í opinberri umræðu það gríðarlega mikla starf sem er unnið af ýmsum aðilum um allt land. Fólk sem dundar sér við innflutning á ólöglegum varningi sér markaðstækifæri í því að samkeppnin sé upprætt. Enda veit ég nokkur dæmi þess að samkeppnin hefur hreinlega komið upplýsingum til réttra aðila til að ryðja samkeppninni úr vegi, eins dauði, annars brauð. Margir sem stunda þessa viðskiptahætti eru langt frá því að vera kjánar þó siðaramminn sé talsvert bjagaður og þess vegna þarf allt samfélagsöryggisnetið að vinna saman. Mín skoðun er sú að leggja mun meiri áherslu á það með samhæfðum aðgerðum að fókusera á að minnka eftirspurnina eftir ólöglegum varningi. Það verður alltaf til fólk sem er tilbúið að taka séns á tolli og löggu til að efnast enda sína dæmin það að miklu meira af efni sleppur í gegn en er tekið svo eru það yfirleitt vanhæfir einstaklingar sem taka að sér burðinn inní landið og sitja svo eftir með dóminn séu þeir teknir.