fimmtudagur, 27. desember 2007

Götusmiðjan og jólin.

Tíundu jól Götusmiðjunnar í fullum gangi og gaman að segja frá því að allir nemarnir sem eru í meðferð hér komust í jól hjá ættingjum í þetta skiptið nema 16 ára stúlka sem flúði heimili sitt og valdi að eyða jólunum með sér miklu eldri kærasta á hóteli í borginni þar sem margt misjafnt fór fram og barnaverndarnefnd hvergi í sjónmáli. Hún skilaði sér þó sem betur fer á tilsettum tíma í meðferðina eins og aðrir.

Jólin eru alltaf súr/sætur tími hér í Götusmiðjunni bæði fyrir starfsfólk og nema. Oft er það svo að einhverjir nemar hafa ekki fjölskyldur til að njóta jólanna með þannig að þau dvelja með starfsfólki sem reynir að gera jólin sem hlýjust með þeim.

Gamlárskvöld er hinum megin við komandi helgi og spennan stig magnast með hverri mínútu þar sem gamlárskvöld er einn af stóru póstunum á árinu í að gleyma sér í doða og alsælu vímuefnanna.

Þrátt fyrir að margt megi betur fara í velferðarkerfi okkar er líka margt sem er gott og vel gert. Ég er þakklátur öllu því fólki sem lagði okkur lið við að gera Götusmiðjuna að raunveruleika og að því öfluga meðferðartæki sem hún er. Um eitt þúsund ungmenni hafa komið til meðferðar hjá Götusmiðjunni síðastliðin tíu ár og er ég hreykinn af því að þau hafa leyft og treyst okkur í að styðja sig til farsællra lífs.

fimmtudagur, 20. desember 2007

Með reynsluna að vopni.

Eftir að hafa starfað með unglingum í nokkur ár og horft upp á úrræðaleysi í meðferðarmálum þeirra á Íslandi fékk ég þá snilldarhugmynd að opna meðferðarheimili fyrir ungt fólk í vímuefnavanda. Það hvarflar stundum að mér í hvaða ástandi ég sjálfur var þegar ég tók þessa ákvörðun. Líklega var það bjargvætturinn í alkabarninu í mér sem var að verki. Staðreyndin er sú að ég kem frá mjög brotnu heimili, er fullorðið barn alkahólista og var fíkill sjálfur. Ég fór í ótal meðferðir sem virkuðu illa eða alls ekki. Fyrir 16 árum komst ég að því að eina sem ég þurfti að gera var að þora að vera ég sjálfur. Ég þurfti bara einhvern til að leiðbeina mér. Loksins hitti ég meðferðaraðila sem var tilbúinn að tengjast mér og gat labbað mér í gegn um þá vanlíðan sem var rót vandans hjá sjálfum mér.

Á þeim 10 árum sem Götusmiðjan hefur starfað hef ég eflaust verið að reyna að bjarga sjálfum mér sem og öllum þeim unglingum sem lifa á jaðri samfélagsins og hafa ratað inn í dimman heim fíkniefnaneyslunnar. Sú reynsla sem ég hef af þeim heimi, lífstílnum og afleiðingunum sem honum fylgir var og er það sem ég byggi meðferð Götusmiðjunnar á. Ég spurði mig spurninga. Hvað hefði á sínum tíma fengið mig til að snúa af þessari ógæfubraut. Hvernig hefði unglingurinn Mummi viljað láta mæta sér? Mummi sem hafði allt á hornum sér, var reiður út í lífið, leitaði vellíðunar í vímuefnum og var tilbúinn að brjóta lög og reglur til að halda úti þessum ömurlega lífsstíl. Já, hvernig hefði þurft að nálgast hann? Ég taldi mig vita það fyrir 10 árum og tel mig vita það núna.

Sú leið sem ég valdi að fara í uppbyggingu meðferðarnálgunar í Götusmiðjunni byggist á mannlegri nálgun og tilfinningavinnu því einhverstaðar hjá öllum fíknum einstaklingum er undirliggjandi tilfinningalega vanlíðan í einhverju formi. Mín reynsla er sú að fíkn er alltaf birtingarform öðrum vanda. Það þarf því að mínu mati kenna fólki að snúa vanlíðan í vellíðan án þess að þurfa nota til þess vímuefni. Það kennum við í Götusmiðjunni og lykillinn að því að unga fólkið læri að skilja og greina tilfinningar sínar og komast þannig að rót vandans er að allt starfsfólk meðferðarheimilisins, fagmenntað og ófagmenntað, sé tilbúið í mannlega nálgun með því, sé tilbúið að tengjast.

Það reyndist í raun auðveldara að byggja upp hugmyndafræðina og meðferðarnálgunina í Götusmiðjunni heldur en að finna starfsfólk sem var tilbúið til að starfa eftir henni. Sjálfur hafði ég reynsluna eina að vopni en gerði mér fulla grein fyrir því að ég þyrfti að fá til liðs við mig fagmenntað fólk. Gallinn við fagmennskuna er stundum sá að hana skortir oft reynsluna og hún skýlir sér með hinum faglegu mörkum og gallinn við reynsluna er oft sá að hana skortir fræðin og hún er oft markalaus. Í ljósi þessa taldi ég gáfulegast að fá til mín blöndu af starfsfólki. Reynslubolta og akademískt menntað starfsfólk.

Sú blöndun gekk ekki eins vel og ég hafði vonað. Það var endalaus pissukeppni milli starfsfólks um eigin getu og ágæti. Reynslan og fræðin stóðu enni í enni. Faglegu mörkin fuku út í veður og vind, allavega hvað samskipti starfsfólks. Þetta gekk einfaldlega ekki upp. Smátt og smátt hörfuðu reynslan undan fræðinni. En það skrýtna var að þegar Götusmiðjan var orðin stútfull af kenningum og fræðum sem átti að nýta í hina mannlegu nálgun þá upphófts pissukeppni dauðans fyrir alvöru. Ég skildi hvorki upp né niður í þessu og mér féllust hreinlega hendur. Hvers vegna gat fólkið ekki unnið saman? Hin mannlega meðferðarnálgun var draumur í dós ef starfsfólkið, hvort sem var fagmenntað eða ófagmenntað var með hundshaus út í hvert annað í vinnunni.

Smátt og smátt lærðist mér að það er ekki menntunin ein og sér eða reynslan sem skiptir mestu máli þó að hvorutveggja verði vissulega að vera til staðar. Það er manneskjan sem heldur á reynslunni/menntuninni sem er aðalatriði. Hvernig er sýn hennar á lífið og tilveruna? Hvernig sér hún sjálfa sig í starfi með unglingum? Hvernig er innsæi hennar og færni í mannlegum samskiptum? Er eigin garður í þokkalegri rækt? Hér skiptir mestu máli að þora að nálgast viðfangsefnin sem eru fyrst og fremst ungar brotnar sálir sem þarf að hjálpa út í lífið á nýjan leik með því að sýna virðingu, hlýju og kærleik.

Síðustu árin hef ég aftur blandað saman fagfólki og reynsluboltum. Það sem ég hef að leiðarljósi við ráðningu eru fyrst og fremst mannkostir og sú sýn sem viðkomandi hefur á mannlega nálgun. Í ráðningarviðtölum spyr ég fólk að því hvort að það sé tilbúið að tengjast skjólstæðingnum. Flestir segja já við þeirri spurningu en þegar á reynir kemst viðkomandi að því að það er hægara sagt en gert því að viðkomandi hefur ofmetið hæfileika sína til að tengjast á þeim forsendum sem meðferðin gerir ráð fyrir og eigin garður er kannski ekki alveg í eins góðri rækt og talið var. Unglingarnir geta verið harður spegill og starfið með þeim gerir miklar kröfur til okkar.

Flestir skjólstæðingar sem koma til Götusmiðjunnar hafa mikla reynslu af því að sitja fyrri framan allskyns fagfólk og tala um tilfinningar sínar og reynslu en hafa ekki hugmynd um það við hvern þau eru að tala. Það myndast ekki gagnkvæm tenging og lítil mannleg nánd. Hin faglegu mörk eru skýr, stundum kuldaleg og þau eru sett af meðferðaraðilanum. Vera má að slík meðferð henti einhverjum. Margir meðferðaraðilar skilja ekki að það er hægt að tengjast og sýna samkennd án þess að opna hurðina að eigin persónulífi eða missa sig í meðvirkni. Um það snýst ekki tengingin sem hér um ræðir. Hún felst gagnkvæmri virðingu, hlýju og áhuga á hinum mannlegu þáttum sem fæst þeirra unglinga sem til okkar koma hafa mikla reynslu af en við viljum kenna þeim. Vissulega þurfa allir að læra að virða mörk. Það læra skjólstæðingar okkar líka, bæði sín eigin mörk og annarra.

Í mannlegri nálgun er hinum faglegu mörkum oft ógnað. Þau verða loðin, óljós og jafnvel engin. Staðreyndin er sú að fagleg mörk eiga illa heima í mannlegri meðferðarnálgun, eiginlega eiga þau alls ekki heima þar. Þetta gengur mörgum illa að skilja, sérstaklega þeim sem koma með akademíska menntun inn í Götusmiðjuna. Getur verið að hin faglegu mörk séu notuð sem tæki til að verja sig gagnvart áreiti skjólstæðingsins? Ég hef oft séð það gerast að starfsmenn, fagmenntaðir sem og ófagmenntaðir sem ekki hlúa að sjálfum sér, fara að upplifa skjólstæðinginn sem áreiti. Þeir fara að kalla á harðari reglur og refsingar í meðferðinni því allt er að fara til fjandans hjá þeim sjálfum. Í raun og veru er ekkert að gerast annað en það að starfsfólkið hefur ekki passað upp á garðinn sinn. Ég hef horft á eftir nokkrum starfsmönnum öskrandi niður afleggjarann í bullandi “burnouti”, eigandi langa þerapíu fyrir höndum ef þeir ætla að eiga afturkvæmt í meðferðarvinnu með fólki.

Vinnan með þessum ungu brotnum manneskjum er ein sú erfiðasta sem hægt er að velja sér. Skiptir þá engu hvort viðkomandi starfsmaður er háskólagenginn, menntaður vímuefnaráðgjafi eða reynslubolti.

ALLIR starfsmenn eru jafn mikilvægir í meðferðinni hjá Götusmiðjunni. Bros og hlýleg orð frá kokkinum á réttum stað á réttum tíma getur sett meðferðina í jákvæðari farveg. Ég hef séð slíka hluti gerast oft og verð alltaf sannfærðari um gildi hinnar mannlegu nálgunar sem ég lagði upp með fyrir 10 árum. En tilgangur meðferðar er alltaf sá að efla tilfinningagreind og félagsþroska einstaklingsins þannig að hann segir “nei takk” við neikvæðum lífstíl af því að honum líður “nei takk”

föstudagur, 14. desember 2007

Guðsorð í annarri og refsivönd í hinni.

Mikið er búið að diskutera "blessaða" biblíuna eftir að hún var enn og aftur færð í stílinn. Hvað haldið þið að það sé búið að ritskoða þessa “blessaða” bók oft í gegnum aldirnar? Þetta á ekki að hljóma eins og ég beri ekki virðingu fyrir trúarbrögðum fólks. Ég geri það alla leið þó svo að heimsmálin geri mér svolítið erfitt fyrir stundum. Trú fólks og stofnunin þjóðkirkja er tvennt ólíkt og finnst mér að ríkishempu-embættismenn þjóðkirkjunnar eiga að berjast sjálfir fyrir aðskilnaði frá ríki og snúa sér alfarið að sálgæslu og færi sig nær fólki sem þarf á þeim að halda. Hætta svo að beita “blessaðri” bókinni fyrir sig til að þvæla og tefja umræðuna þegar kemur að svo sjálfsögðum mannréttindum eins og hvort samkynhneigðir fái að gifta sig í kirkjum landsins eða ekki.

Sjálfur er ég meðlimur í Reykjavíkurgoðorði sem tilheyrir ásatrú. Ekki það að ég skelli mér á skeljarnar á vondum degi og biðji Óðinn og félaga um stuðning og styrk heldur snýst málið einfaldlega um arfleið og að viðhalda henni og valdi þar af leiðandi að staðsetja mig hjá ásum. Öll trúarbrögð eru í grunnin full af hollri lesningu um siðfræði en það er ekki fyrr en að mannskepnan fer að túlka siðferðið og snúa því upp í heilög orð að allt fer til fjandans eins og sagan sýnir okkur.

Ein tilfinningin af tilfinningaflóru mansins er þörf hans fyrir að trúa því að eitthvað sé honum æðra og þetta jarðlíf hafi allt stærri og merkilegri þýðingu en að lifa af dag frá degi. Ef ég hefði fæðst í miðausturlöndum væri ég sennilega múslimi í dag. Spurningin er einfaldlega sú í hvaða félagslega umhverfi fæðumst við og þar staðsetjum við trúar tilfinninguna okkar af því að umhverfið kennir okkur það.

En aftur að "blessuðu" bókinni. Fríkirkjuprestur varar við því að "blessaða" bókin sé ekki tilbeðin eins og skurðgoð. Get ekki verið honum meira sammála. Ég þori að saga af mér útlim ef bókin er ekki skrifuð af breyskum mönnum í upphafi og þeir tekið sér gróft skáldaleyfi um þátt heilags anda í ritstörfunum. Ég held að upphaflega hafi bókin verið rituð sem siðferðis handbók síns tíma. Siðferði þess tíma var mjög brútal svo reglulega þurfti að uppdeita "blessaða" bókina. Gamla testamentið er helmingurinn af biblíunni og við erum að tala um skrifara sem voru uppi fyrir nokkur þúsund árum. Nýja testamentið eins og nafnið gefur til kynna er öllu nýlegra en samt æfa fornt og hefur farið ansi oft í gegnum aldirnar í ritskoðun af hempuklæddum mönnum sem túlkuðu orðið eftir tíðaranda hvers tíma. Aftur vil ég efast um að heilagur andi hafi verið með í ritstörfunum og heilagi andinn hafi haft einhverja sérstaka skoðun á því hvern við elskum og hvernig. Hvað þá hvernig kynlífs athafnir okkar yrðu í byrjun 21 aldar.

Hvernig svo sem við upplifum "blessaða" bókina, er önnur hlið á þessu máli. Ljóta hliðin sem mannkynssagan er full af. Keisarar, kóngar og pólitíkusar frá upphafi hafa alltaf vingast við æðstu toppa trúfélaga til þess að hafa stjórn á fjöldanum. Þið þekkið þessar sögur. Ef ekki? Grípið í næsta miðil og skoðið hvernig trúmál og pólitík er notuð saman sem stjórntæki um allan heim enn þann dag í dag og þar á meðal á Íslandi. Með því bara að hafa ráðherra sem æðsta mann yfir einhverju sem heitir þjóðkirkja er verið að skekkja siðarammann verulega. Það var ekkert óvart að dómsmál og kirkja voru sett saman í eitt ráðuneyti á sínum tíma því það er auðveldara að dæma fólk með guðsorð í annarri hendi og refsivönd í hinni .

Á Íslandi erum við enn að flörta við þetta "power game" með ríkistrúarbrögðum en pólitíkusar þora ekki að hrófla við umræðunni um aðskilnað af ótta við hvernig massinn muni bregðast við og þá gætu atkvæði verið í húfi þó svo að jafnræðisreglan sé margbrotin þegar kemur að fjárveitingum til trúfélaga og mannréttindi brotin. Ráðuneytið og forsetinn sem er verndari ríkiskirkjunnar þora ekki að hreifa sig nema að embættismenn í hempum gefi græna ljósið. Hvað er svona flókið við það að samþiggja lög sem gerir öllu fólki jafnt undir höfði hvað svo sem embættismönnum þjóðkirkjunnar finnast um málið? Er það kannski vegna þess að æðsti maður þjóðkirkjunnar er pólitíkus og hangir enn í gömlum gildum?

Eftir að hafa kynnst presti á fornu biskupssetri norður í landi þar sem ég reyndi að læra eitthvað gagnlegt á sínum tíma varð ég vitni að því að presturinn misnotaði ungan nema kynferðislega eftir að hafa hellt hann fullann. Eftir að þáverandi biskup heyrði fréttirnar frá okkur nemum skutlaði hann í eina bæn eða svo og grét svo yfir illsku heimsins og málið var dautt.

Minnir svolítið á það hvernig herir afgreiða sín innanhúsvandamál en þeir eru líka allir með einhverskonar trúarspekinga sem blessa hermenn og drápstól áður en lagt er í orrustur þar sem líf er murkað úr oftast saklausu fólki sem hefur kannski ekki sömu trúarskoðanir. Guðsorðið í annarri og refsivöndurinn í hinni.

fimmtudagur, 6. desember 2007

Sagan af Sveini.

Sveinn (skáldað nafn) var á átjánda ári þegar hann kemur fyrst til meðferðar í Götusmiðjuna sem var hið besta mál miðað við stöðuna á honum þá. Sveinn var búinn að misnota hina ýmsu vímugjafa í nokkur ár og var orðin mjög tilfinninga og líkamlega þjáður af vímuefnanotkun og átröskun hjálpaði ekki. Hann hafði búið á götunni meira og minna í nokkur ár fyrir utan sex mánaðar tímabil sem hann bjó hjá fullorðnum manni sem sá honum 16 ára gömlum fyrir vímuefnum og húsaskjóli í skiptum fyrir kynlíf.

Það er algengt með börnin okkar sem enda á götunni að þau selji sig til að lifa af eða skipta á kynlífi og húsaskjóli. Einnig eru þau öll komin á kaf í afbrotaheiminn þar sem þau eru iðurlega misnotuð á ýmsa vegu. Oftast er það svo að börnin sem velja að búa á götunni eru að flýja ömurlegt ástand heima fyrir eða búin að koma sér út úr húsi vegna vímuefnaneyslu og afbrota.

Sveinn missti annað foreldri sitt ungur og hitt misnotaði hann og sistkyni hans. Hann var svo“alin” upp af fósturforeldrum sem voru kannski ekki þeir hæfustu í hlutverkið vegna drykkju. Sveinn var vistaður í Götusmiðjunni á vegum Barnaverndar RVK eins og öll börn undir 18 ára aldri sem koma frá RVK.

Sveinn varð 18 ára í meðferðinni og við það slitnuðu öll tengsl hans við Barnavernd RVK og málin færðust yfir á Féló í RVK. Þá skilgreindur sem fullorðinn maður og átti að bjarga sér sjálfur eins og aðrir nema hvað Sveinn var engan vegin fær um það.

Fljótlega í meðferðinni kemur í ljós að hann á við geðræn vandamál að stríða ofan í allt annað sem hann var að kljást við. Geðveilan kom ekki í ljós fyrr en víman rann af honum.

Eftir kast sem Sveinn fékk í meðferðinni fer hann inní geðbatteríið og fær greiningu og lyf sem áttu að hjálpa honum sem þau og gerðu.

Hann kemur aftur í Götusmiðjuna til að klára meðferðina sem hann gerir eftir 12 mánaða vist. Sveinn er jákvæður, glaður og er orðinn spenntur að takast á við lífið þarna úti og búin að skrá sig í nám og tilbúinn til þess að okkar mati. En þá fyrst byrjar bullið endalausa. Eltingaleikur við félagsráðgjafa eftir félagsráðgjafa en það var á þessum tíma stöðugt verið að færa málið hans milli borða en í upphafi meðferðar var öllum hjá Barnavernd og Féló fyllilega ljóst að hann væri það illa staddur félagslega að gatan beið hans ef ekkert yrði að gert.

Þá kom getuleysi Féló og borgarinnar berlega í ljós í þessum málum því niðurstaða var eftir allan eltingarleikinn að senda hann á áfangaheimili þrátt fyrir hávær síendurtekin mótmæli okkar í Götusmiðjunni. Þar sem Sveinn átti við geðræn vandamál að stríða þurfti hann og þarf meiri og þéttari þjónustu en ella.

Reynslan hefur kennt okkur að hefðbundin áfangaheimili henta engan vegin þessu unga fólki sökum þess hvað það er lítil þjónusta til staðar. Enda eru þessi áfangaheimili ekki hugsuð fyrir ungmenni en þau eru ítrekað sett þar niður þrátt fyrir að þau séu hugsuð fyrir fullorðið og meira sjálfbjarga fólk.

En Féló RVK í úrræðaleysi sínu setur hann samt á áfangaheimilið og hann endar í herbergi með fullorðnum manni sem er í bullandi neyslu. Sveinn flýr út á götu í óttakasti undan herbergisfélaganum og hættir að taka lyfin sín og endar fljótlega aftur inná geðdeild í mjög slæmu ástandi. Geðlæknir þar sækir um að hann fái að koma aftur til meðferðina hjá Götusmiðjunni eftir að hann var búin að lenda honum í annað sinn með lyfjum.

Rúmum þremur árum síðar er Sveinn orðinn 21 árs gamall og er enn hjá Götusmiðjunni að bíða eftir að Féló í RVK finni varanlega lausn á húsnæðisvanda þessa flotta stráks svo hann eigi möguleika á farsælu lífi.

Það er lögboðin skilda sveitarfélaga að sjá um eftirfylgni eftir meðferð. Saga Sveins er alls ekkert einsdæmi þegar kemur að því að finna þessum krökkum viðunnandi búsetu. Greinaritari er búinn að tala við flesta ráða-og embættismenn borgarinnar síðastliðin 14 ár sem hafa með félagsmál að gera og rætt þar vanda Sveins og allra hinna ungmennanna sem þurfa hjálp. Jú, við höfum alltaf verið algerlega sammála um það að ástandið sé gersamlega óviðunnandi en Sveinn bíður hér enn, nokkrum árum síðar.

Reynsla Götusmiðjunnar og ég veit fleiri meðferðarstofnanna er að Reykjavíkurborg sem er stærsta og ríkasta sveitarfélagið á landinu stendur sig “by far” langverst af öllum sveitarfélögum landsins í að sinna börnunum okkar út í lífið eftir meðferð. Döpur staðreynd þar sem Reykjavíkurborg er að spara stóra peninga á því að þessir krakkar nái fótfestu í lífinu ef þessi umræða á eingöngu að snúast um peninga eins og gjörðir embættismannana og pólitíkusana sýna.

laugardagur, 1. desember 2007

1 stk. RÚV til sölu.

Hugmyndafræðin á bak við ríkisrekinn fjölmiðil er að sinna menningu, listum og á að virka sem einhverskonar öryggisupplýsingamiðill. Það er náttúrlega ekki hægt að treysta öðrum miðlum fyrir því. Sama fjölmiðlafólkið hleypur á milli stöðva og er teystandi hér en ekki þar. Páli Magnússyni var ekki treystandi fyrir öryggishlutverkinu á Stöð 2 en á RÚV hefur hann traustið. Aha! sé þetta núna "silly me"! Þetta snýst náttúrulega um það hver er vinnuveitandinn og um stærð launaumslagsins hvar viðkomandi er staðsettur á traustskalanum.

Einhver þarf að útskýra fyrir mér rökin fyrir því að halda úti þrem stk. ríkisreknum miðlum því ég er einfaldlega ekki að fatta þau. Ein sjónvarpstöð og tvær útvarpsrásir? Er ekki yfirdrifið að ríkið haldi úti einni útvarpsrás ef þetta er svona mikið öryggismál og öðrum miðlum ekki treystandi fyrir því hlutverki? Útvarpstækið er allstaðar, meira að segja í flestum gsm símum sem eru alltaf við höndina. Sé ekki alveg fyrir mér að burðast með flatskjáinn minn hvert sem ég fer til að upplifa öryggistilfinninguna sem RÚV á að veita mér.

Hlutlaus fréttaflutningur er oftast nefndur í rökræðum um tilvist RÚV. Sem menntaður kvikmyndagerðarmaður veit ég að það er ekki til neitt sem heitir hlutlaus umfjöllun nema að tilfinningalaust vélmenni sjái um dagskrágerðina frá a til ö. Við erum ekki enn komin þangað tæknilega. Siðferði fólks breytist ekkert hvort sem það er opinbert starfsfólk hjá ríkismiðli eða hjá einkamiðli.

Í bananalýðveldum eru fjölmiðlafyrirtæki það fyrsta sem er hertekið í uppreisnum til að stýra upplýsingunum til massans. Er þetta ótti pólitíkusa við að hafa ekki öruggan aðgang að fjölmiðli? Það er ekki langt síðan að hver einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi hafði dagblað til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þau blöð hættu ekki útgáfu af góðmennsku við okkur heldur hætti fólk að hanga á stuðningi við stjórnmálaflokka eins og hvert annað íþróttalið. Reksturinn stóð einfaldlega ekki undir sér þó að ríkistyrktur væri.

Flestir sem ég hef rætt við um málefni RÚV koma með sömu rökleysuna, ekki ósvipað og þegar ríkistrúarbrögðin eru rædd og eru "Tja, sko! Bara... af hverju ekki? Þá fyrst yrði forsenda fyrir rökræðum um tilvist þessara stofnunnar ef hún myndi henda út öllum auglýsendum og kostendum , þá myndi maður líka borga skylduáskriftina með minni fýlusvip.

Sjálfstæðismenn eru síblaðrandi um að ríkið eigi ekki að standa í samkeppni á almennum vinnu- og afþreyingamarkaði en svo hanga þeir á þessari ríkistofnun eins og ormur á gulli. Ef dagskrádeild RÚV stæði sig í því að halda úti almennilegri íslenskri dagskrágerð sem er ein af forsendum tilvistar RÚV mætti vel halda áfram að torfa tilvist hennar. Auðmenn fá aumingjahroll yfir litlum metnaði hjá RÚV í íslenskri dagskrágerð, rífa upp veskið og setja hundruð miljóna króna í stofnunina. Auglýsingatími í miðju Skaupi er boðinn út og skárri dagskrágerð er í boði Landsbankans.


Hollvinafélag RÚV, held ég að sá félagsskapur heiti, hljómar eins og biskupinn í málflutningi sínum með endalausar réttlætingar um að ríkið eigi að sjá um trúrækni og Hollvinafélagið vill að ríkið sjái um afþreyingu landans. Vita félagar í Hollvinafélaginu ekki að það er hægt að fá útrás fyrir þörfina að sinna félagstörfum hjá hinum ýmsu félaga- og góðgerðasamtökum. Ríkistofnunin þjóðkirkjan býður meira að segja uppá sjálfboðavinnu og jafnvel launuð störf um allan heim. Svo er líka hægt að bjóða sig fram í stjórn húsfélagsins heima. Þar geta þeir látið eitthvað gott af sér leiða.

Það eitt að stofnað skuli félag um hagsmuni ríkistofnun á almennum afþreyingarmarkaði ætti að setja skrítinn svip á andlit blástakkana.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Siv hvarf en hvar er Gulli?

Sumarið 2006 lagðist ég í víking og símaði til þáverandi heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttur. Ég var fullur vonar og bjartsýni að hún mundi heiðra mig með nokkura mínútna spjalli. Taldi mig vera að gera rétt þar sem vímuefnavndinn heyrir, jú, líka undir þetta ráðuneyti, segir sagan á götunni. Ég fylgdi óskum mínum um fund fast eftir eða allt fram að kosningum tæpu ári síðar. Ritari hennar tjáði mér ítrekað á þeim tíma að minn tími mundi koma og þá gætum við Siv horfst í augu og sameiginlega lagst á eitt við að styrkja og efla meðferðastarf á Íslandi. En kosningadagurinn kom svo og vorið. En þegar úrslit lágu fyrir rann það upp fyrir mér að okkar tími var hvergi í sjónmáli í fyrirsjáanlegri framtíð nema þá kannski að við hittumst tilfallandi á götuhorni einhvern daginn. Ef svo verður, mun ég tjá henni vonbrigði mín með fundinn sem aldrei varð og jafnframt hughreysta hana eftir bestu getu eftir vonda útreið í síðustu kosningum.

Guðlaugur okkar maður Þór hneppti stólinn hennar og ég símaði í snarhasti og fylgi símtalinu eftir með formlegum rafrænum pósti eftir að umræddur ritari hafði tjáð mér að það væri venjan. Tíðræddur ritari tjáði mér að minn tími mun koma og þá gætum við Gulli sko horfst í augu og brotið blað í meðferðasögu okkar Íslendinga. Miðað við árið sem ég beið eftir símtali frá Siv er ég ekki enn farinn að örvænta neitt að ráði þó Gulli okkar maður sé búin að láta mig hinkra síðan í sumar. Enda ekki auðveld mál þar á borði sem kalla á góða yfirsýn við að ráðstafa almannafé svo flestir haldi lífi og heilsu.

Ég trúi því að biðin þroski mig og kennir mér æðruleysi af bestu sort því ég þroskaðist, jú, heil ósköp á árinu sem ég beið eftir Siv. Nú meðan ég held áfram að þroskast í biðinni eftir að okkar maður Gulli sími til mín er ég fullur vonar og bjartsýni að það gerist fyrir næstu kosningar og brjóti með mér blað í meðferðasögu okkar Íslendinga. Síðan munum við fagna gerðum háleitra markmiða og úrlausna á vímefnavanda okkar Íslendinga, sem er víst talsverður hef ég heyrt.


En svona til öryggis, ef þið rekist á háttvirtan ráðherra viljið þið láta hann vita að ég sé enn í þroskaferli í biðinni og að mér þykir enn vænt um hann. Það getur nefnilega verið svo kalt og einmannalegt á toppnum. Sjáið hvernig fór fyrir Siv hún gleymdist næstum því alveg í síðustu kosningum og ekki viljum við að það komi fyrir Gullann okkar Þór, þennan öðlings pilt sem hann er og með þetta líka fallega höfuðlag.