fimmtudagur, 20. mars 2008

Hef sagt þetta áður en verð að segja það aftur.

Var að dunda mér við að lesa  hugmyndafræðina bak við pólitísku flokkana  og hvað þeir stæðu fyrir á blaði en lætur bíða eftir sér í verki. Verð að viðurkenna allir eiga þeir hugmyndfræði undir sér sem fær mann til að vilja flagga við öll tækifæri. En það sem mér finnst sameiginlegt með öllum flokkum er þessi fagurgala útsetning, sem sagan sýnir okkur að má túlka í allar áttir. Að hlúa eigi að þeim sem minna mega sín og við sem samfélag verðum að vera til staðar fyrir hvort annað þegar lífið hrynur ofan á einhvern. Sem sagt þessi humaníski undirtónn að manngildi sé ofar auðgildi.

Ég er einmitt einn af þeim sem trúi því alla leið að manngildi sé mun hærra en auðgildi. Þetta minnir mig óneitanlega á slagorð Flokk mannsins heitins sem ruddist með húmanísku kærleiksofbeldi fram á sjónarsviðið en þjóðin snéri flokkinn niður og hraunaði yfir hugmyndafræðina. Kannski setti Flokkur mannsins svolítinn lit í framtíða pólitíkina. Í þá daga  réðu  snaróðir efnishyggjumenn bak við tjöldin (gera enn) og pólitíkusar freyddu úr pontum um mikilvægi þess að þreyja þorrann. Gargandi alþýða var þá og er enn óþægileg stærð, sívælandi um betri laun og meiri velferðarþjónustu. En barátta Flokks mannsins á sínum tíma endaði eins og blautur fretur og þjóðin blés dauninn burt.   Ég man upphrópanir eins og "Guð minn góður, er þetta lið á lyfjum" eða góðlegt og samúðarlegt andvarp með orðum eins og "greyin" Þegar ég hugsa til baka og rifja upp baráttu þessa hugsjónafólks sem var áberandi á níunda áratugnum, dáist ég af þessu hugaða fólki. Fannst svo frábært hvað þau voru einlæg í trú sinna á að Íslensk þjóð væri orðin svo þroskuð að styðja til valda flokk sem trúð því staðfastlega að mannskepnan væri mun meira virði en peningar en viti menn, þjóðin kaus gamla þreytta liðið enn og aftur yfir sig. 

Í minni minningu var fólkið bak við Flokk Mannsins langt á undan sinni samtíð með baráttumál  sem snérust aðallega um húmaníska velferðaþjónustu og virðingu fyrir móðir jörð. Allir með greind yfir stofuhita í dag eru sammála því að Móðir Jörð þjáist undan ágangi okkar mannanna.  

Yfir tuttugu árum síðar, keppumst við pöpullinn við að fá pólitískt kosna einstaklinga til að sjá raunveruleikann í því að þetta snýst allt um velferð fólksins í landinu. Forgangsröð verkefna kosinna pólitíkusa er ekki alveg að slá í takt með okkur sem förum í kjörklefana og veljum að treysta þeim fyrir skútunni næstu árin.  En kannski erum við bara sundurleitur hópur einstaklinga sem keppist við að lifa af dag frá degi en köllum okkur samheldna Íslendinga á góðum degi (heyrist gjarnan úr ræðustólum undir blaktandi taui) en á vondum degi stendur maður sig að hugsunum eins og mér er skítsama, þetta kemur mér ekki rassgat við. En ég ætla "sko" að nota atkvæðið mitt og kjósa eins og ég hef alltaf gert, en hvað ég kýs kemur engum við (sem er að sjálfsögðu rétt). En jafnframt pottþétt svar til að þurfa ekki að taka þátt í heilbrigðu "debatti" um velferð þessara þjóðar og sá hinn sami kýs að gömlum góðum fjölskylduvana.  

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aaaaaaa....sællar minningar. Flokkur Mannsins!

Í fyrsta skipti sem ég kaus til Alþingis .. kaus ég Flokk Mannsins.. :-) Og fór með það eins og mannsmorð. En fyrir mér var það mín ungdómsuppreisn. Hlakkaði í mér við eldhúsborðið.. bara ef "fullorðna" fólkið vissi hvað ég kaus... :-) Mér fannst þeir bara meika sens. Og finnst enn!!!

En verð að viðurkenna að atkvæði mínu hefur verið varið á ýmsan hátt síðan þá.. þó mér finnist ég í dag vera búinn að finna mína hillu í pólitík sem jafnast best við mínar lífsskoðanir. En það er í því eins og mörgu öðru í lífinu að einhver málamiðlun verður að eiga sér stað!! Kannski er ég ekki bara sami uppreisnarseggurinn og ég var fyrir slatta af árum síðan!!!

Takk annars fyrir einlæga og skemmtilega pistla. Ekki alltaf alveg sammála þér en það er aukaatriði.

Kv. Jón H. Eiríksson

Nafnlaus sagði...

Smáleiðrétting... Fór að rifja upp bernskubrek mín á pólitíska sviðinu aðeins betur upp og fattaði þá að á undan Flokki Mannsin kom Kvennalistinn!! Sem sagt, ég var að kjósa til Alþingis í annað sinn er ég kaus Flokk Mannsins. Vill halda þessu vel til haga þar sem ég er nokkuð stoltur af framsýni minni að hafa kosið Kvennalistann á sínum tíma.... :-) Jafn mikið og það hvarflar ekki að mér að sverja af mér þann heiður að hafa verið einn af örfá hundruð sem sýndi þá hugdjörfung að kjósa Flokk Mannsins! :-)

Kv. Jón H. Eíriksson

Nafnlaus sagði...

Flokk mannsins vantaði metnað fyrir jarðgöngum og vilja til að drepa hvali, þessvegna fékk hann lítið fylgi.

Við Íslendingar erum uppaldir sem vinnudýr og veiðidýr, sem dreyma sum um að verða möppudýr, það er toppurinn. Andlegt líf þjóðarinnar er of mikið tengt trúarrugli allskonar, laust við andlega heimspeki. Við erum skíthrædd við frelsi, það hefur ekkert breyst frá því á tímum Jörundar hundadagakonungs. Við höfum vanist fjötrum efnishyggjunnar í formi stjórnlausra langana í flatskjái og annað þvílíkt dót. Ef einhver ætlar að boða háleita, göfuga og sanna hugmyndafræði á Íslandi, verður hann eða hún að boða hana í sterku blandi með allskonar lausnum í efnahagsmálum, enda er líf manna á þrennu sviði, efnislegu, huglegu og andlegu.

Kveðja,
Guttormur Sigurðsson

Nafnlaus sagði...

hæhæ mummi minn! vildi bara þakka þér fyrir mig og fyrir staðinn og starfsfólkið eins og götusmiðjuna... Bjargaði lífi minu, en annars gengur bara vel hjá mer. byrja að vinna á mánudaginn og svona;) þykir vænt um ykkur og mátt skila kveðju til krakkanna og starfsfólksins:*

knús frá mér og múttu,

KV Viktoría

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil, Mummi. Reyndar verð ég að segja að baráttumál Flokks mannins eldast afar vel en kannski voru húmanistar 15 árum of snemma með þessi málefni. Þetta voru skemmtilegir tímar þó ekki hafi fiskast vel í kosningum.
Kveðja,
Kristín Sævarsd.