laugardagur, 1. desember 2007

1 stk. RÚV til sölu.

Hugmyndafræðin á bak við ríkisrekinn fjölmiðil er að sinna menningu, listum og á að virka sem einhverskonar öryggisupplýsingamiðill. Það er náttúrlega ekki hægt að treysta öðrum miðlum fyrir því. Sama fjölmiðlafólkið hleypur á milli stöðva og er teystandi hér en ekki þar. Páli Magnússyni var ekki treystandi fyrir öryggishlutverkinu á Stöð 2 en á RÚV hefur hann traustið. Aha! sé þetta núna "silly me"! Þetta snýst náttúrulega um það hver er vinnuveitandinn og um stærð launaumslagsins hvar viðkomandi er staðsettur á traustskalanum.

Einhver þarf að útskýra fyrir mér rökin fyrir því að halda úti þrem stk. ríkisreknum miðlum því ég er einfaldlega ekki að fatta þau. Ein sjónvarpstöð og tvær útvarpsrásir? Er ekki yfirdrifið að ríkið haldi úti einni útvarpsrás ef þetta er svona mikið öryggismál og öðrum miðlum ekki treystandi fyrir því hlutverki? Útvarpstækið er allstaðar, meira að segja í flestum gsm símum sem eru alltaf við höndina. Sé ekki alveg fyrir mér að burðast með flatskjáinn minn hvert sem ég fer til að upplifa öryggistilfinninguna sem RÚV á að veita mér.

Hlutlaus fréttaflutningur er oftast nefndur í rökræðum um tilvist RÚV. Sem menntaður kvikmyndagerðarmaður veit ég að það er ekki til neitt sem heitir hlutlaus umfjöllun nema að tilfinningalaust vélmenni sjái um dagskrágerðina frá a til ö. Við erum ekki enn komin þangað tæknilega. Siðferði fólks breytist ekkert hvort sem það er opinbert starfsfólk hjá ríkismiðli eða hjá einkamiðli.

Í bananalýðveldum eru fjölmiðlafyrirtæki það fyrsta sem er hertekið í uppreisnum til að stýra upplýsingunum til massans. Er þetta ótti pólitíkusa við að hafa ekki öruggan aðgang að fjölmiðli? Það er ekki langt síðan að hver einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi hafði dagblað til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þau blöð hættu ekki útgáfu af góðmennsku við okkur heldur hætti fólk að hanga á stuðningi við stjórnmálaflokka eins og hvert annað íþróttalið. Reksturinn stóð einfaldlega ekki undir sér þó að ríkistyrktur væri.

Flestir sem ég hef rætt við um málefni RÚV koma með sömu rökleysuna, ekki ósvipað og þegar ríkistrúarbrögðin eru rædd og eru "Tja, sko! Bara... af hverju ekki? Þá fyrst yrði forsenda fyrir rökræðum um tilvist þessara stofnunnar ef hún myndi henda út öllum auglýsendum og kostendum , þá myndi maður líka borga skylduáskriftina með minni fýlusvip.

Sjálfstæðismenn eru síblaðrandi um að ríkið eigi ekki að standa í samkeppni á almennum vinnu- og afþreyingamarkaði en svo hanga þeir á þessari ríkistofnun eins og ormur á gulli. Ef dagskrádeild RÚV stæði sig í því að halda úti almennilegri íslenskri dagskrágerð sem er ein af forsendum tilvistar RÚV mætti vel halda áfram að torfa tilvist hennar. Auðmenn fá aumingjahroll yfir litlum metnaði hjá RÚV í íslenskri dagskrágerð, rífa upp veskið og setja hundruð miljóna króna í stofnunina. Auglýsingatími í miðju Skaupi er boðinn út og skárri dagskrágerð er í boði Landsbankans.


Hollvinafélag RÚV, held ég að sá félagsskapur heiti, hljómar eins og biskupinn í málflutningi sínum með endalausar réttlætingar um að ríkið eigi að sjá um trúrækni og Hollvinafélagið vill að ríkið sjái um afþreyingu landans. Vita félagar í Hollvinafélaginu ekki að það er hægt að fá útrás fyrir þörfina að sinna félagstörfum hjá hinum ýmsu félaga- og góðgerðasamtökum. Ríkistofnunin þjóðkirkjan býður meira að segja uppá sjálfboðavinnu og jafnvel launuð störf um allan heim. Svo er líka hægt að bjóða sig fram í stjórn húsfélagsins heima. Þar geta þeir látið eitthvað gott af sér leiða.

Það eitt að stofnað skuli félag um hagsmuni ríkistofnun á almennum afþreyingarmarkaði ætti að setja skrítinn svip á andlit blástakkana.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli það séu til hollvinasamtök fyrir einhverjar aðrar ríkisstofnanir? Held varla enda er þetta stórskrýtið fyrirbrigði.