Mikið er búið að diskutera "blessaða" biblíuna eftir að hún var enn og aftur færð í stílinn. Hvað haldið þið að það sé búið að ritskoða þessa “blessaða” bók oft í gegnum aldirnar? Þetta á ekki að hljóma eins og ég beri ekki virðingu fyrir trúarbrögðum fólks. Ég geri það alla leið þó svo að heimsmálin geri mér svolítið erfitt fyrir stundum. Trú fólks og stofnunin þjóðkirkja er tvennt ólíkt og finnst mér að ríkishempu-embættismenn þjóðkirkjunnar eiga að berjast sjálfir fyrir aðskilnaði frá ríki og snúa sér alfarið að sálgæslu og færi sig nær fólki sem þarf á þeim að halda. Hætta svo að beita “blessaðri” bókinni fyrir sig til að þvæla og tefja umræðuna þegar kemur að svo sjálfsögðum mannréttindum eins og hvort samkynhneigðir fái að gifta sig í kirkjum landsins eða ekki.
Sjálfur er ég meðlimur í Reykjavíkurgoðorði sem tilheyrir ásatrú. Ekki það að ég skelli mér á skeljarnar á vondum degi og biðji Óðinn og félaga um stuðning og styrk heldur snýst málið einfaldlega um arfleið og að viðhalda henni og valdi þar af leiðandi að staðsetja mig hjá ásum. Öll trúarbrögð eru í grunnin full af hollri lesningu um siðfræði en það er ekki fyrr en að mannskepnan fer að túlka siðferðið og snúa því upp í heilög orð að allt fer til fjandans eins og sagan sýnir okkur.
Ein tilfinningin af tilfinningaflóru mansins er þörf hans fyrir að trúa því að eitthvað sé honum æðra og þetta jarðlíf hafi allt stærri og merkilegri þýðingu en að lifa af dag frá degi. Ef ég hefði fæðst í miðausturlöndum væri ég sennilega múslimi í dag. Spurningin er einfaldlega sú í hvaða félagslega umhverfi fæðumst við og þar staðsetjum við trúar tilfinninguna okkar af því að umhverfið kennir okkur það.
En aftur að "blessuðu" bókinni. Fríkirkjuprestur varar við því að "blessaða" bókin sé ekki tilbeðin eins og skurðgoð. Get ekki verið honum meira sammála. Ég þori að saga af mér útlim ef bókin er ekki skrifuð af breyskum mönnum í upphafi og þeir tekið sér gróft skáldaleyfi um þátt heilags anda í ritstörfunum. Ég held að upphaflega hafi bókin verið rituð sem siðferðis handbók síns tíma. Siðferði þess tíma var mjög brútal svo reglulega þurfti að uppdeita "blessaða" bókina. Gamla testamentið er helmingurinn af biblíunni og við erum að tala um skrifara sem voru uppi fyrir nokkur þúsund árum. Nýja testamentið eins og nafnið gefur til kynna er öllu nýlegra en samt æfa fornt og hefur farið ansi oft í gegnum aldirnar í ritskoðun af hempuklæddum mönnum sem túlkuðu orðið eftir tíðaranda hvers tíma. Aftur vil ég efast um að heilagur andi hafi verið með í ritstörfunum og heilagi andinn hafi haft einhverja sérstaka skoðun á því hvern við elskum og hvernig. Hvað þá hvernig kynlífs athafnir okkar yrðu í byrjun 21 aldar.
Hvernig svo sem við upplifum "blessaða" bókina, er önnur hlið á þessu máli. Ljóta hliðin sem mannkynssagan er full af. Keisarar, kóngar og pólitíkusar frá upphafi hafa alltaf vingast við æðstu toppa trúfélaga til þess að hafa stjórn á fjöldanum. Þið þekkið þessar sögur. Ef ekki? Grípið í næsta miðil og skoðið hvernig trúmál og pólitík er notuð saman sem stjórntæki um allan heim enn þann dag í dag og þar á meðal á Íslandi. Með því bara að hafa ráðherra sem æðsta mann yfir einhverju sem heitir þjóðkirkja er verið að skekkja siðarammann verulega. Það var ekkert óvart að dómsmál og kirkja voru sett saman í eitt ráðuneyti á sínum tíma því það er auðveldara að dæma fólk með guðsorð í annarri hendi og refsivönd í hinni .
Á Íslandi erum við enn að flörta við þetta "power game" með ríkistrúarbrögðum en pólitíkusar þora ekki að hrófla við umræðunni um aðskilnað af ótta við hvernig massinn muni bregðast við og þá gætu atkvæði verið í húfi þó svo að jafnræðisreglan sé margbrotin þegar kemur að fjárveitingum til trúfélaga og mannréttindi brotin. Ráðuneytið og forsetinn sem er verndari ríkiskirkjunnar þora ekki að hreifa sig nema að embættismenn í hempum gefi græna ljósið. Hvað er svona flókið við það að samþiggja lög sem gerir öllu fólki jafnt undir höfði hvað svo sem embættismönnum þjóðkirkjunnar finnast um málið? Er það kannski vegna þess að æðsti maður þjóðkirkjunnar er pólitíkus og hangir enn í gömlum gildum?
Eftir að hafa kynnst presti á fornu biskupssetri norður í landi þar sem ég reyndi að læra eitthvað gagnlegt á sínum tíma varð ég vitni að því að presturinn misnotaði ungan nema kynferðislega eftir að hafa hellt hann fullann. Eftir að þáverandi biskup heyrði fréttirnar frá okkur nemum skutlaði hann í eina bæn eða svo og grét svo yfir illsku heimsins og málið var dautt.
Minnir svolítið á það hvernig herir afgreiða sín innanhúsvandamál en þeir eru líka allir með einhverskonar trúarspekinga sem blessa hermenn og drápstól áður en lagt er í orrustur þar sem líf er murkað úr oftast saklausu fólki sem hefur kannski ekki sömu trúarskoðanir. Guðsorðið í annarri og refsivöndurinn í hinni.
2 ummæli:
Takk fyrir þennan fína pistil.
Eitthvað segir mér að þú sért heill og sannur. Eitthvað segir mér að þú munir fyrr dauður liggja en víkja af vegi sannleikans. En eitthvað segir mér að þú munir þurfa að berjast við fáfróða fávita alla tíð. Þeir finnast einkum í "æðstu stöðum" okkar stjórnkerfis. Eg stend með þér.
Skrifa ummæli