Eftir að hafa starfað með unglingum í nokkur ár og horft upp á úrræðaleysi í meðferðarmálum þeirra á Íslandi fékk ég þá snilldarhugmynd að opna meðferðarheimili fyrir ungt fólk í vímuefnavanda. Það hvarflar stundum að mér í hvaða ástandi ég sjálfur var þegar ég tók þessa ákvörðun. Líklega var það bjargvætturinn í alkabarninu í mér sem var að verki. Staðreyndin er sú að ég kem frá mjög brotnu heimili, er fullorðið barn alkahólista og var fíkill sjálfur. Ég fór í ótal meðferðir sem virkuðu illa eða alls ekki. Fyrir 16 árum komst ég að því að eina sem ég þurfti að gera var að þora að vera ég sjálfur. Ég þurfti bara einhvern til að leiðbeina mér. Loksins hitti ég meðferðaraðila sem var tilbúinn að tengjast mér og gat labbað mér í gegn um þá vanlíðan sem var rót vandans hjá sjálfum mér.
Á þeim 10 árum sem Götusmiðjan hefur starfað hef ég eflaust verið að reyna að bjarga sjálfum mér sem og öllum þeim unglingum sem lifa á jaðri samfélagsins og hafa ratað inn í dimman heim fíkniefnaneyslunnar. Sú reynsla sem ég hef af þeim heimi, lífstílnum og afleiðingunum sem honum fylgir var og er það sem ég byggi meðferð Götusmiðjunnar á. Ég spurði mig spurninga. Hvað hefði á sínum tíma fengið mig til að snúa af þessari ógæfubraut. Hvernig hefði unglingurinn Mummi viljað láta mæta sér? Mummi sem hafði allt á hornum sér, var reiður út í lífið, leitaði vellíðunar í vímuefnum og var tilbúinn að brjóta lög og reglur til að halda úti þessum ömurlega lífsstíl. Já, hvernig hefði þurft að nálgast hann? Ég taldi mig vita það fyrir 10 árum og tel mig vita það núna.
Sú leið sem ég valdi að fara í uppbyggingu meðferðarnálgunar í Götusmiðjunni byggist á mannlegri nálgun og tilfinningavinnu því einhverstaðar hjá öllum fíknum einstaklingum er undirliggjandi tilfinningalega vanlíðan í einhverju formi. Mín reynsla er sú að fíkn er alltaf birtingarform öðrum vanda. Það þarf því að mínu mati kenna fólki að snúa vanlíðan í vellíðan án þess að þurfa nota til þess vímuefni. Það kennum við í Götusmiðjunni og lykillinn að því að unga fólkið læri að skilja og greina tilfinningar sínar og komast þannig að rót vandans er að allt starfsfólk meðferðarheimilisins, fagmenntað og ófagmenntað, sé tilbúið í mannlega nálgun með því, sé tilbúið að tengjast.
Það reyndist í raun auðveldara að byggja upp hugmyndafræðina og meðferðarnálgunina í Götusmiðjunni heldur en að finna starfsfólk sem var tilbúið til að starfa eftir henni. Sjálfur hafði ég reynsluna eina að vopni en gerði mér fulla grein fyrir því að ég þyrfti að fá til liðs við mig fagmenntað fólk. Gallinn við fagmennskuna er stundum sá að hana skortir oft reynsluna og hún skýlir sér með hinum faglegu mörkum og gallinn við reynsluna er oft sá að hana skortir fræðin og hún er oft markalaus. Í ljósi þessa taldi ég gáfulegast að fá til mín blöndu af starfsfólki. Reynslubolta og akademískt menntað starfsfólk.
Sú blöndun gekk ekki eins vel og ég hafði vonað. Það var endalaus pissukeppni milli starfsfólks um eigin getu og ágæti. Reynslan og fræðin stóðu enni í enni. Faglegu mörkin fuku út í veður og vind, allavega hvað samskipti starfsfólks. Þetta gekk einfaldlega ekki upp. Smátt og smátt hörfuðu reynslan undan fræðinni. En það skrýtna var að þegar Götusmiðjan var orðin stútfull af kenningum og fræðum sem átti að nýta í hina mannlegu nálgun þá upphófts pissukeppni dauðans fyrir alvöru. Ég skildi hvorki upp né niður í þessu og mér féllust hreinlega hendur. Hvers vegna gat fólkið ekki unnið saman? Hin mannlega meðferðarnálgun var draumur í dós ef starfsfólkið, hvort sem var fagmenntað eða ófagmenntað var með hundshaus út í hvert annað í vinnunni.
Smátt og smátt lærðist mér að það er ekki menntunin ein og sér eða reynslan sem skiptir mestu máli þó að hvorutveggja verði vissulega að vera til staðar. Það er manneskjan sem heldur á reynslunni/menntuninni sem er aðalatriði. Hvernig er sýn hennar á lífið og tilveruna? Hvernig sér hún sjálfa sig í starfi með unglingum? Hvernig er innsæi hennar og færni í mannlegum samskiptum? Er eigin garður í þokkalegri rækt? Hér skiptir mestu máli að þora að nálgast viðfangsefnin sem eru fyrst og fremst ungar brotnar sálir sem þarf að hjálpa út í lífið á nýjan leik með því að sýna virðingu, hlýju og kærleik.
Síðustu árin hef ég aftur blandað saman fagfólki og reynsluboltum. Það sem ég hef að leiðarljósi við ráðningu eru fyrst og fremst mannkostir og sú sýn sem viðkomandi hefur á mannlega nálgun. Í ráðningarviðtölum spyr ég fólk að því hvort að það sé tilbúið að tengjast skjólstæðingnum. Flestir segja já við þeirri spurningu en þegar á reynir kemst viðkomandi að því að það er hægara sagt en gert því að viðkomandi hefur ofmetið hæfileika sína til að tengjast á þeim forsendum sem meðferðin gerir ráð fyrir og eigin garður er kannski ekki alveg í eins góðri rækt og talið var. Unglingarnir geta verið harður spegill og starfið með þeim gerir miklar kröfur til okkar.
Flestir skjólstæðingar sem koma til Götusmiðjunnar hafa mikla reynslu af því að sitja fyrri framan allskyns fagfólk og tala um tilfinningar sínar og reynslu en hafa ekki hugmynd um það við hvern þau eru að tala. Það myndast ekki gagnkvæm tenging og lítil mannleg nánd. Hin faglegu mörk eru skýr, stundum kuldaleg og þau eru sett af meðferðaraðilanum. Vera má að slík meðferð henti einhverjum. Margir meðferðaraðilar skilja ekki að það er hægt að tengjast og sýna samkennd án þess að opna hurðina að eigin persónulífi eða missa sig í meðvirkni. Um það snýst ekki tengingin sem hér um ræðir. Hún felst gagnkvæmri virðingu, hlýju og áhuga á hinum mannlegu þáttum sem fæst þeirra unglinga sem til okkar koma hafa mikla reynslu af en við viljum kenna þeim. Vissulega þurfa allir að læra að virða mörk. Það læra skjólstæðingar okkar líka, bæði sín eigin mörk og annarra.
Í mannlegri nálgun er hinum faglegu mörkum oft ógnað. Þau verða loðin, óljós og jafnvel engin. Staðreyndin er sú að fagleg mörk eiga illa heima í mannlegri meðferðarnálgun, eiginlega eiga þau alls ekki heima þar. Þetta gengur mörgum illa að skilja, sérstaklega þeim sem koma með akademíska menntun inn í Götusmiðjuna. Getur verið að hin faglegu mörk séu notuð sem tæki til að verja sig gagnvart áreiti skjólstæðingsins? Ég hef oft séð það gerast að starfsmenn, fagmenntaðir sem og ófagmenntaðir sem ekki hlúa að sjálfum sér, fara að upplifa skjólstæðinginn sem áreiti. Þeir fara að kalla á harðari reglur og refsingar í meðferðinni því allt er að fara til fjandans hjá þeim sjálfum. Í raun og veru er ekkert að gerast annað en það að starfsfólkið hefur ekki passað upp á garðinn sinn. Ég hef horft á eftir nokkrum starfsmönnum öskrandi niður afleggjarann í bullandi “burnouti”, eigandi langa þerapíu fyrir höndum ef þeir ætla að eiga afturkvæmt í meðferðarvinnu með fólki.
Vinnan með þessum ungu brotnum manneskjum er ein sú erfiðasta sem hægt er að velja sér. Skiptir þá engu hvort viðkomandi starfsmaður er háskólagenginn, menntaður vímuefnaráðgjafi eða reynslubolti.
ALLIR starfsmenn eru jafn mikilvægir í meðferðinni hjá Götusmiðjunni. Bros og hlýleg orð frá kokkinum á réttum stað á réttum tíma getur sett meðferðina í jákvæðari farveg. Ég hef séð slíka hluti gerast oft og verð alltaf sannfærðari um gildi hinnar mannlegu nálgunar sem ég lagði upp með fyrir 10 árum. En tilgangur meðferðar er alltaf sá að efla tilfinningagreind og félagsþroska einstaklingsins þannig að hann segir “nei takk” við neikvæðum lífstíl af því að honum líður “nei takk”
3 ummæli:
Góður pistill. Það er mikill vandi að fara í þetta hlutverk "hjálparans" og margar gildrurnar á leiðinni.
Hlýtur að vera mjög erfitt að finna hæft fólk á þinn vinnustað. Nógu er það erfitt í "venjuleg" störf. Gangi þér vel áfram sem hingað til með frábært starf.
These early servomechanisms were rapidly augmented with analog and digital computers, creating the trendy CNC machine instruments which have revolutionized machining processes. From the automotive and aerospace industries to industrial manufacturing and firearms producers, we aim to boost production processes with our providers. We strive to create strategic and valuable partnerships with all of our high-volume prospects across selection of|quite so much of|a wide selection of} markets. Miller Broach takes nice pride in our broach providers as this is what our firm was founded on. Miller Broach manufactures, sharpens cvs flip flops and reconditions flat, round, spline, and pot broaches of any measurement.
Skrifa ummæli