laugardagur, 19. janúar 2008

Handrukkarinn enn og aftur.

Veit ekki hvort ég á að gráta eða hlæja þegar enn og aftur gamla þreytta umræðan um handrukkara fer af stað og hættir nákvæmlega þegar fjölmiðlar fá leið á henni aftur. Svo líður X tími og gamla þeytta umræðan um vondu handrukkarana og getuleysi stjórnvalda til að takast á við þá byrjar aftur. Ef það á að finna sökudólg sem stendur í vegi fyrir lausninni er það auðvelt og það er að sjálfsögðu getuleysi löggunar og þá aðalega þeirra sem stjórna þar á bæ, eða þeirra sem eru yfir þeim í kerfinu. Löggan á málaflokkin og staðreyndin er sú ef  fólk á að þora að stíga fram og benda á þá sem standa í þessu þarf löggan að vera til staðar og vernda þann sem bendir. Ef ekki, heldur vandinn bara áfram og ástandið versnar ef eitthvað er eins og sagan hefur gjarnan  sýnt okkur. Þeir handrukkarar sem ég hef þekkt til finnst löggan lélegur brandari og varla verðugur andstæðingur því fórnarlambið er alltaf óvarið og auðfundið.


Fyrir um fjórum árum sat ég fyrir framan alsherjarnefnd alþingis og þessi umræða var þar á borðum. Þar sátu nokkrir kerfispappakassar og görguðu allan tímann á fundinum að fólk ætti bara að hringja á lögguna og það væri sko stóra lausninn á þessum leiðindum. Síðan er fjöldi manns búin að hringja í lögguna og hafa svo bara lent í miklu verri málum í höndum handrukkara í kjölfarið.  Ég er einn þeirra sem hef bent fólki á að borga ef það getur því reglulega koma upp mál hjá Götusmiðjunni þar sem  ungt fólk er að jafna sig eftir slæma útreið eftir að handrukkara hafa valtað yfir viðkomandi og fjölskyldu hans/hennar. Þetta er umræða sem ég hef tekið virkan þátt í samfélaginu í mörg ár. En staðreyndin er einfaldlega sú að 63 opinberir starfsmenn við Austurvöll hafa lítin sem engan áhuga á umræðunni hvað þá lausninni. Segi það og skrifa, þetta er jú fólkið sem setur leikreglurnar fyrir kerfið sem á að sinna þessum málaflokki. 

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Eins dauði er annars brauð.

Gleðilegt nýtt ár og megi Guðirnir styðja okkur öll til dáða í ár. Til hamingju tollur og lögga með viðurkenninguna frá 365 miðlum. Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim aðilum sem koma að vímuefnatjóninu á hinum endanum með því að styðja fíklana og brotnu einstaklingana í kringum þá til betra lífs fyrir gott samstarf á síðasta ári. Að tolli og löggu ólöstuðum vill oft gleymast í opinberri umræðu það gríðarlega mikla starf sem er unnið af ýmsum aðilum um allt land. Fólk sem dundar sér við innflutning á ólöglegum varningi sér markaðstækifæri í því að samkeppnin sé upprætt. Enda veit ég nokkur dæmi þess að samkeppnin hefur hreinlega komið upplýsingum til réttra aðila til að ryðja samkeppninni úr vegi, eins dauði, annars brauð. Margir sem stunda þessa viðskiptahætti eru langt frá því að vera kjánar þó siðaramminn sé talsvert bjagaður og þess vegna þarf allt samfélagsöryggisnetið að vinna saman. Mín skoðun er sú að leggja mun meiri áherslu á það með samhæfðum aðgerðum að fókusera á að minnka eftirspurnina eftir ólöglegum varningi. Það verður alltaf til fólk sem er tilbúið að taka séns á tolli og löggu til að efnast enda sína dæmin það að miklu meira af efni sleppur í gegn en er tekið svo eru það yfirleitt vanhæfir einstaklingar sem taka að sér burðinn inní landið og sitja svo eftir með dóminn séu þeir teknir.