þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Hugrenningar um sjálfsmynd þjóðar?

Mér finnst alltaf jafn undarlegt að heyra í fólki sem hengir sig í skilgreininguna "sjúkdómur" þegar það talar um fíkn og hangir á hugtakinu eins og heilagri ritningu. Sumir ganga svo langt að nota læknisfræðileg heitið "alcaholicus cronicus" þegar það ræðir áfengisneyslu sína. Eins og þetta sé eins og hver önnur umgangspest sem smitast milli manna. Einu smitin sem ég hef orðið var við í vímuefnamálaflokknum eru félagsleg smit. Orðið "sjúkdómur" getur aldrei verið jákvætt hugtak hvernig sem þú skoðar það eða veltir því fyrir þér. Einstaklingur sem leggur í sjálfsvinnu eftir að hafa þróað með sér fíkn, sama hvað fíknin heitir og er með sjálfsmyndina "ég er sjúklingur, því þetta er sjúkdómur" er bara að gera sér erfitt fyrir.

Fíkill undir 18 ára er skilgreindur sem félagslegt vandamál og heyrir því undir félagsmál í kerfinu. Daginn sem fíkillinn verður 18 ára, er hann á sama degi orðinn sjúklingur í kerfinu og heyrir þá undir heilbrygðismál. Þar á bæ eru öll mál  skilgreind sem "sjúkdómur" og er hugtakinu troðið inní sjálfsmeðvitund landans í allri umræðu. 

Margir óvirkir fíklar verða reiðir, þegar ég held þessum hugmyndum úti, að fíkn hafi ekkert með "sjúkdóm" að gera. Ég er oft spurður, hvort mér finnist þeir þá vera aumingjar? Fíklar, virkir eða óvirkir eru stundum svo svart/hvítir í hugsun að ef þetta er ekki "sjúkdómur" þá hlýtur þetta að vera aumingjaskapur. Í mínum huga er það hvorugt, þó svo að virkur fíkill geti hagað sér eins og aumingi, þótt hann sé það alls ekki í grunninn. Ég hef alltaf litið þannig á og aldrei séð annað, hvort heldur þegar ég var virkur eða orðinn óvirkur fíkill, né í starfi mínu með ungum fíklum, að fíkn er undantekningalaust birtingaform á allt öðrum undirliggjandi vanda. Í staðin fyrir að vera alltaf að fókusera á fíknina sjálfa, þarf að finna undirliggjandi orsakir fyrir henni. Af hverju festast sumir í fíkn en aðrir ekki?  Af þeirri einföldu ástæðu að víman deifir brotna sjálfsmynd fíkilsins og verður leið hans til að deyfa sig fyrir sársaukanum sem hann upplifir og hvaðan sem hann kemur. Brotinni sjálfsmynd hjá fíklum fylgir alltaf lág tilfinninga-og félagsgreind sem hægt er að efla og um það á meðferð að snúast.   

Ef þú þú færð einhvern "sjúkdóm" og þar með kallaður "sjúklingur" hættirðu þá að vera manneskja og "sjúkdómurinn" verður sjálfið þitt?  Það eru yfir 300 þúsund "sjúklingar" á klakanum í dag, ef maður hlustar í samfélaginu. Getur verið að við séum búin að heyra það svo oft "sjúkdómur þetta og sjúkdómur hitt" að við hreinlega séum farin að trúa því að við séum á einum stað, öll sjúk? Kannski þess vegna, eigum við Íslendingar heimsmet í hinu ýmsu lyfjaáti og þar trónir hæst geðlyfjaát. Ég velti því fyrir mér, bara með því að fara til tannlæknis og láta hreinsa í sér tennurnar er maður kallaður sjúklingur. Feita fólkið í umræðunni eru tómir sjúklingar, en ekki manneskjur sem borða of mikið og eiga erfitt með hætta því. Ég bíð spenntur eftir því,  að einhver í hvítum sloppi fer að ræða það opinberlega að samkynhneigð sé "sjúkdómur" og örvhentir jafnvel "helsjúkir" Og landin kemur til með að lepja það hugsunarlaust upp. AD-HD var rætt í útvarpsþætti um daginn sem ég hlustaði á sem sjúkdómur??? Á þetta bull engann endi að taka? 

Uppruni orðsins "sjúkdómur", á fíkn í alkahol kemur frá Alþóðarheilbryggðisstofn um miðja síðustu öld. Áfengisfíkn var var svo stórt vandamál í hinum vestræna heimi að vandanum var gefið "sjúkdóms" númer hjá stofnuninni. Sem varð til þess að fólk þess tíma fór að opna augun fyrir vandanum  og gera eitthvað í málunum. Áður var litið niður á fólk sem varð fíkninni  að bráð og orðið "aumingi"  gjarnan notað á það og mörgum finnst það enn. Sem betur fer er umræðan í dag um fíkn orðin mun þroskaðri hjá flestum okkar, en sumir eru fastir í hellinum hamrandi á síðustu aldar hugmyndafræði.

Ég er einn þeirra sem hef haldið því á lofti að það eigi alls ekki að kalla fíkn, "sjúkdóm" Fyrir utan það að "sjúkdómurinn" hefur aldrei verið sannaður en líkurnar á því að þú verðir fíkill af því að foreldrar þínir eru það, eru miklar. En er það vegna þess að þú ert með "genið" ógurlega eða af því að börn sem alast upp hjá fíklum eru með stórskaðaða sjálfsmynd?  Félagslegar rannsóknir sína mun hærri fylgni en líffræðilegar. 

Doctorarnir við voginn og Kári genaspekúlant hafa eitt mörgum árum saman í það að finna áfengisgenið ógurlega. Gengu svo langt að Persónuvernd sá ástæðu til að slá á puttana á þeim.  Allt í lagi með það ef þeir hafa ekkert betra að gera, en að leita að geni, bara til að halda "sjúkdóms" umræðunni til streitu er bara rörsýn og leið til að halda umræðunni eingöngu innan læknastéttarinnar. En hvað ef þeir svo römbuðu á gen merkt alkahol fíkn eða jafnvel gen merkt veiðifíkn? Á þá að leggjast í meiri "sjúkdómspælingar" og þróa lyf við "sjúkdómnum"? Pillur við fíkn verða aldrei annað en nýtt læknadóp, því fíkn er félagslegur og tilfinningalegur vandi. Afi átti bara Bensa, pabbi keyrir ekki annað og ég var að endurnýja minn. Má sjá þetta fjölskyldu thema með Bensinn út frá félagslegu og tilfinningalegu samhengi? Eða er til Bens gen?  

Sama hvað fíkn maðurinn hefur valið sér til að lifa af, sé ég ekki meininguna í því að klastra orðinu "sjúkdómur" á orsök og afleiðingu þess að vera fíkill. Virkur fíkill notar gjarnan orðið "sjúkdómur" til að þurfa ekki að taka ábyrgð vanda sínum. En Þeir sem eru svo kjarkaðir að þora að takast á við fíkn sína eiga alls ekki að mínu mati að setja það inní sjálfið. Heldur skoða sig út frá því að vera manneskja, sem á eða átti við vanda að stríða. Allt fólk, sem til er í þessum heimi á við einhverskonar vanda að stríða, tímabundið eða varanlega og það hjálpar því nákvæmlega ekkert að skilgreina sig sem "sjúkling"  Hættum að persónugera okkur út frá læknisfræðilegum hugtökum eins og t.d. "ég ER offitusjúklingur" Notum heldur orð eins og "ég er manneskja, en er of þung"  Sjálfsmynd okkar verður jákvæðari og þar af leiðandi verðum við miklu hæfari til að takast á við það sem er að hrjá okkur hverju sinni. 


14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það festist meira vit á klósettpappírnum sem ég notaði í morgun heldur en er í þessum hugleiðingum Mumma.

Nafnlaus sagði...

Ég er nú að detta hingað inn í fyrsta skipti.. en má ekki hugsa það sem svo að fólk vilji nota sjúkdómshugtakið til þess að frýja sig frá þeirri hugmynd að þeir séu aumingjar og þar af leiðandi óbjargandi? Ég er algjörlega hlynnt því að taka ábyrgð á eigin gjörðum en það er hægt að sigra sjúkdóma og yfirvinna þá með því að vinna vinnuna sína, taka meðölin sín sem í þessu tilviki getur verið andleg vinna. Smá pæling :)

Nafnlaus sagði...

Mikið óskaplega er ég sammála þessu. Sjúkdómavæðing samtímans fríar okkur ábyrgð á eigin lífi. Er það ekki bara málið að mönnum hrýs almennt hugur við því að leggja í þá miklu vinnu og sálarskoðun sem brotin sjálfsmynd krefst? Svo ég tali nú ekki um sársaukann sem því fylgir...

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þessum hugleiðingum. Ég er AA maður og fullyrði að sjúkdómshugtakið hefur dregið marga i gröfina. Ég hef heyrt fáránlegar afsakanir fyrir fylleríum þar sem fólk afsakar gerðir sínar vegna þess að það er með sjúkdóm. Man eftir einum sem sagði án þess að blikna að hann dytti svona 6 til 10 sinnum í það á ári vegna þess að "sjúkdómurinn" væri bara svo illvígur í sér.Bati við fíkn felst EINMITT í því að taka ábyrgð á gerðum sínum. Taka ábryrgð á lífi sínu og STANDA sig sem meðlimur í fjölskyldu, sem maki, sem foreldri og sem MANNESKJA.Að fela sig bakvið "sjúkdóm" er besta leiðin til þess að ná hraklegum árangri í baráttunni fyrir betra og fyllra lífi.Bravó Mummi!

-Loksins kom eitthvað af viti um áfengismál á Íslandi.

Nafnlaus sagði...

Þetta er, held ég, partur af stærra samhengi. Sjúkdómavæðing samfélagsins. Sést ákaflega vel inni í skólakerfinu þar sem þessu er oft beitt (í grunninn) til að sinna einstaklingunum betur.
Góð færsla hjá þér.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst skrítið að lesa mann sem vinnur með börnum með fíknivanda skrifa svona ófaglega. Þér finnst hitt og þetta en ég sé ekki haldbær rök. Ekki veit ég hvort eitthvað alkagen er til en hins vegar er sannað að heilastarfsemi fíkla er öðruvísi en þeirra sem ekki kljást við fíkn. Vísindi eru skipulögð söfnun þekkingar og persónulega tek ég þau fram yfir órökstutt "mér finnst" fólks. Ég skil heldur ekki þessa sjúkdómsfóbíu. Fullt er til af sjúkdómum sem hægt er að halda niðri með breytingum á lifnaðarháttum og með því að taka ábyrgð á lífi sínu og alkahólismi er einn þeirra. Annars getur hann reynst lífshættulegur. Ef fólk vantar afsökun fyrir því að detta í það þá er sjúkdómshugtakið jafn góð afsökun og hvað annað. Það vill til að afneitun og sjálfslýgi er einmitt eitt af einkennunum. Ég sé hins vegar vandann við að meðferð á unglingum sem græða kannski ekki svo mikið á svona skilgreiningum. En mér finnst traustvekjandi að fólk hafi alla vega aflað sér þekkingar sem viðurkennd er í því fagi sem það vill vera spámenn í.

Nafnlaus sagði...

Gaman að rekast hér inn á "gamlan lærisvein"

Ég er öll á kafi í félagslegu pælingunum. Fíkn er sjúklegt ástand sem á sér mínu viti líffræðilegar og félagslegar forsendur. Rannsóknir hafa sýnt að sumir eru mótttækilegri fyrir ákv. fíkn líkamlegan en félagslegt umhverfi skiptir gríðarlegu máli og hefur í raun úrslitaáhrif um það vor einstaklingurinn þróar með sér fíkn eða ekki.

Sjúkdómsvæðingin er gríðarleg í þessu samfélagi og alkahólismi var í raun ráð heldri manna til að þróa kerfi til aðstoðar þeim heldri mönnum sem áttu við áfengisvanda að stríða. Ráðandi hópar samfélagsins þurftu að fá verkfæri sem voru viðurkennd af samfélaginu.

Ég sammála þér að fíkn er undatekningarlaust birtingarform annars konar vanda sem einstaklingurinn hefur ekki tekist á við nema með því að deyfa hann með efnum.

Eins og með sjálfsmyndina þá er people first hugmyndafræðin mjög merkileg því henni er ætlað að setja einstklinginn í forgrunn, til dæmis samkvæmt henni er réttara að segja maður með áfengisfíkn heldur en áfengisfíkill.

Ég gæti haldið endalaust áfram, mér finnst þessi umræða mjög áhugaverð og þörf.

Nafnlaus sagði...

Einu sinni um miðjan dag á sunnudegi neitaði ég að afgreiða áfengi til eins sem mér fannst full slompaður fyrir stað og stund. Hann hreytti í mig fullur vandlætingar: "Þú skilur mig ekki. Ég VERÐ að drekka, því ég er alkohólisti!" Klassískt dæmi um hvort kom á undan hænan eða eggið.

Ég held að börn alkohólista séu líklegri til að verða það sjálf vegna lærðrar hegðunar frekar en að það sé í genunum. Við gerum nefnilega ótrúlega margt eins og foreldrar okkar þó við ætlum það ekki.

Nafnlaus sagði...

Ertu þá þar með að segja að ég geti farið að nota vímugjafa spari þegar ég hef púslað saman brotinni sjálfsmynd minni? Að ég geti byrjað að drekka aftur socialt um leið og ég hef komið mér á fætur félagslega? Ég er ekki alveg að skilja hvað þú ert að fara Mummi. Ég hef séð svo marga félaga mína drekka sig í gröfina, og þeir skildu ekkert í því af hverju þeir gátu ekki hætt að drekka, að ég hef ekki tekið sénsinn á því enn þá. Ég hef ekki drukkið í tuttugu og næstum því fimm ár vegna þess að ég hef séð svo marga reyna það, og mistekist. Mér hefur alltaf fundist ástand fíkils í neyslu, sjúklegt og hef þar af leiðandi ekki tengt ástand viðkomandi við neitt annað en sjúkdóm. En ég hef séð fikla ná bata, ég náði bata. Ég hef samt haldið mig við þá líkindafræðilegu skoðun að ef ég byrja aftur að dópa, þá verði ég veikur á ný. En þú gefur mér sannarlega von, ef von skyldi kalla.

Nafnlaus sagði...

Ágætu ofangreindir.

Takk fyrir ykkar komment hér á síðunni en hef örlitlar áhyggjur af geðheilsu nafnlauss aðila sem kryfur WC pappírinn eftir átök iðra sinna á morgnanna. En þú sem ritar hér á undan mér ættir að lesa greinina aftur með hugtakið "hugrenningar" að leiðarljósi. Þeir sem vilja ganga með sjálfsmyndina "ég er sjúklingur" eins og heilaga ritningu, geri það bara og þurfa ekki að láta hugrenninga mína, trufla edrúmennsku sína.

Kveðja Mummi

Nafnlaus sagði...

Ég vona að ég sé ekki ókurteis ef ég pota hérna aðeins minni nýust færslu um efnarákir yfir Reykjavík. Ég er að reyna að safna sem flestum í þessa umræðu og er öllum það frjálst að bæta við athugasemd ef þið viljið tjá ykkur um þetta ákveðna málefni:
Víða efnarákir yfir Reykjavík, krakkar ekki borða snjóinn!!


Kær kveðja Alli

Nafnlaus sagði...

Vá hvað mér finnst þú kjarkaður. Eins og talað út frá mínu hjarta. En...... Með tvo óvirka fíkla/ alkóhólista á heimilinu veit ég að þetta er afskaplega viðkvæmt mál og sérstaklega þetta aumingjaskapinn!!! Finnst einmitt svo margir skýla sér á bakvið "sjúkdóminn" í stað þess að taka á rót vandans.

Áfram þú :-)

Nafnlaus sagði...

persónulega gætti ég notað "hina brotnusjálfsmynd" sem jafn mikkla hækju og sjúkdómshugtakið.

hef prófað, held ég, allar hækjur í þessu samhengi og þær virka allar jafn vel sem slíkar. Ég drekk.

ef einhverjar efasemdir eru um sjúkdóminn Alcoholisma er hægt að fletta því upp hjá vef alþjóða heilbrigðis samtökunum... t.d.
(http://www.who.int/infobase/report.aspx)

varðandi annan nafnlausann AA félaga þá þekki ég til álíka margra sem hafa dáið af því að þeir vilja ekki takast á við þetta sem sjúkdóm.

persónulega lýt ég á þetta sem sjúkdóm og tek ábyrgð á honum sem slíkum með þeim ráðum og tólum sem eru í boði. Þau ráð sem standa flestum til boða eru 12spor AA samtakan(það geta ekki allir opnað meðferðarmiðstöðvar) og þau snúast um að taka ábyrgð á öllum, Öllum gjörðum sínum! ekki í nafni sjúkdómsinns(algengur miskilningur) heldur í eigin nafni til þess að geta hafið nýtt líf með nýrri sjálfsvirðingu, VON OG KÆRLEIKA.

Ég get ekki gefið neinum neitt sem ég á ekki sjálfur þarmeð talda virðingu..

og er það ekki einmitt það sem við erum öll að tala um.. sá sem ekki hefur sjálfsvirðingu lengur mun nota allt sem hækju sama hvaða nafn við gefum því...

sá sem vinnur vinnuna sína og tekur ábyrgð á sjúkdómnum (eða hvað sem menn vilja kalla það)

getur stoltur kallað sig óvirkan,

því að vinna "í sjálfum sér" er erfitt, til að byrja með.
drullu erfitt, en svo fer þetta að vinna með manni og maður fær að upplifa þá tilfinningu að það sem maður er að gera sé gjöf, einhvað sem maður fær að gefa, öðrum ölkum og fólki alment í kringum sig. það vona ég í það minnsta.

p.s ég skrifa undir nafnleind af góðum ástæðum, vona að ykkur þyki það ekki miður.

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá þessa umræðu. Ég er sammála því að sjúkdómavæðingin sé gangin út í öfgar. Það er í mörgum tilvikum mjög undarlegt að kalla fyrirbæri eins og kvíða og þunglyndi sjúkdóma. Ég geri mér grein fyrir því að þunglyndi er til sem sjúkdómur en í mjög mörgum tilvikum eru þunglyndi og kvíði einmitt einkenni ómeðhöndlaðs alkóhólisma. Að taka lyf við þunglyndi eða kvíða án þess að ráðast á rót vandans viðheldur sjúkdómnum (alkóhólismanum), og breiðir yfir hann ef svo má segja. Ástæðan fyrir því að alkóhólismi er skilgreindur sem krónískur sjúkdómur er sú að alkinn getur aldrei aftur drukkið sér að skaðlausu. Í AA-fræðunum er talað um að sjúkdómurinn sé þrískiptur: Líkamlegt ofnæmi (hundrað drykkir er ekki nóg, einn er of mikið), huglæg þráhyggja (þessi þráhyggjukennda hugsun um að næst verði allt í þessu fína, ef ég bara drekk bjór, ef ég bara borða á undan, ef ég bara fá mér vatsglös á milli drykkja, og svo framvegis), og andlegt mein. Og það er þetta andlega mein sem málið snýst að mestu leiti um. Og ég held að Mummi sé að tala um þetta andlega mein þó hann orði það ekki þannig. Sjálfur lít ég á mig sem sjúkling (alkóhólista) en hef náð bata með hjálp 12 spora kerfis AA samtakanna. Ég ber ábyrgð á mínum sjúkdómi með því að stunda AA prógrammið. Ég læt það algjörlega liggja á milli hluta hvort ég sé fæddur með sjúkdóminn eða ekki. Það má fara í ýmsar hártoganir um sjúkdómshugtakið og ég er algjörlega sammála Mumma að það er tilgangslaust og fáránlegt að reyna að búa til lyf við andlegu meini.